144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[21:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við gefum okkur að aðgerðin sé skynsamleg þá mundi ég telja eðlilegast að ráðstafa hinum bókhaldslega hagnaði til lækkunar skuldbindinga ríkisins.

Hv. þingmaður spyr: Er ekki bara enn betra að nota þetta til þess að semja við bankana? Ja, er flýting á greiðslum endilega eitthvað sem bönkunum hentar? Eru þeir ekki stútfullir af peningum hvort sem er? Þá kemur aftur að stóru spurningunni sem ég hef margspurt úr þessum ræðustól: Hvernig verða greiðslurnar til bankanna og lífeyrissjóðanna verðlagðar? Það er mjög margt sem bendir til þess að hér sé á ferðinni núna hjá Framsóknarflokknum einhver stærsta ríkisbjörgunaraðgerð við bankakerfið sem um getur, það sé verið að dæla peningum inn í bankana. Eftirlitsstofnun EFTA fylgist með vökulum augum. Ég á eftir að sjá með hvaða hætti hægt er að sýna fram á raunverð á þeim greiðslum sem hér er verið að inna af hendi. Verðmæti greiðslnanna er að minnsta kosti mjög ólíkt eftir því hver í hlut á. Það er óhugsandi að leggja að jöfnu peninga úr ríkissjóði sem greiddir eru bönkum til uppgreiðslu á íbúðaláni sem er í fullum skilum, sem er aftarlega á veðrétti eða framarlega á veðrétti, þetta er eins og að bera saman epli og appelsínur. Og að segja að króna sé alltaf jafn mikils virði og króna fyrir lánveitandann í uppgreiðslu að þessu leyti er bara hagfræðilega rangt. Í sumum tilvikum kann lánveitandinn að vera himinlifandi að fá kröfuna greidda upp vegna þess að hún er óviss. Í öðrum tilvikum kann hann að verða hundfúll og vilja yfirverð á krónuna ef hann á að þurfa að taka hana, vegna þess að hann er með svo öruggan skuldara til svo langs tíma á svo góðum vöxtum.

Þarna hvílir gríðarleg óvissa í skuldabixinu öllu og eftirtektarvert að ríkisstjórnarflokkarnir forðast eins og heitan eldinn að koma með nokkrar upplýsingar um þetta stóra sullumbull með almannafé (Forseti hringir.) sem yfir stendur.