144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

endurupptaka mála.

[11:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að bjóða hæstv. innanríkisráðherra velkomna í sinn fyrsta fyrirspurnatíma. Ólöf Nordal er okkur að góðu kunn frá því að hún starfaði hér sem þingmaður. Það er bæði tilhlökkunar- og ánægjuefni að fá tækifæri til að starfa með henni aftur.

Ég veit að ráðherrann hefur haft takmarkaðan tíma til að setja sig inn í mál í ráðuneytinu en vil inna hana eftir afstöðu til þingmáls sem var flutt af þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum, öllum nefndarmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og lýtur að því að gefa aðstandendum látinna aðila að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu tækifæri til þess að óska eftir endurupptöku sinna mála ef það er þeirra vilji. Stundum hefur það viljað brenna við að menn hafi skynjað ákveðna andstöðu við það í kerfinu að hreyft sé við þessum gömlu málum sem hafa lengi verið eins og opin sár í samfélaginu. Þá vil ég inna hæstv. ráðherra eftir viðhorfi sínu til þess meginsjónarmiðs sem að baki tillöguflutningnum liggur, að það sé mikilvægt að tryggja í lögum sem víðtækastan rétt fyrir þá sem telja að á sér eða sínum hafi verið illa brotið í þessum gömlu málum.