144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[16:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en það er rétt sem hefur komið fram að lífeyriskerfið og samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða er nokkuð flókið. Eitt af því flóknasta þar er víxlverkun milli lífeyrissjóða og almannatrygginga. Ég ætla rétt aðeins að koma inn á það.

Þannig er að lífeyrissjóðirnir greiða örorkulífeyri sem er ekki mikið talað um, en þetta er mjög veigamikið. Þeir borga, að mig minnir, tugi milljarða á ári í örorkulífeyri. Þeir setja í reglugerð sína að þegar menn fá örorkulífeyri mega þeir ekki hagnast á örorkunni, þ.e. þeir mega ekki fá hærri örorkulífeyri samanlagt en þeir voru með í laun. Það er ósköp eðlileg krafa og ósköp eðlilegt allt saman nema þegar farið er að bera saman laun fyrir mörgum árum og laun núna. Þá er spurning hvernig á að meta það, allt aðrar krónutölur og slíkt.

Það sem ruglar dæmið enn frekar er að menn greiddu á sínum tíma, sumir á mjög lágum launum, afskaplega lágum inn í lífeyrissjóð. Sumir borguðu aðeins af hlutastarfi og borguðu ekki af öllu o.s.frv. Það var ekki nógu mikið eftirlit með því. Þetta er grunnhugsunin.

Síðan gerist það að þegar farið er að bera þennan framreikning saman við bætur frá Tryggingastofnun og það sem Tryggingastofnun lofar kemur í ljós að menn eru komnir upp fyrir þau laun sem þeir með þessum hætti hefðu greitt af. Þá segir lífeyrissjóðurinn: Maðurinn hagnast á örorkunni og við skerðum greiðslurnar. Við skerðinguna skerðast bætur frá Tryggingastofnun vegna þess að þar koma inn í skerðingar á öllum tekjum, þar á meðal tekjum frá lífeyrissjóði. Stuttu eftir að lífeyrissjóðurinn er búinn að skerða greiðslur til mannsins byrjar Tryggingastofnun að skerða framlagið til hans sem þýðir að það þarf aftur að taka hann til endurreiknings og lífeyrissjóðurinn þarf að taka til greina að Tryggingastofnun borgar minna og maðurinn græðir ekki eins mikið á örorkunni og lífeyrissjóðurinn hélt og þá minnka þeir skerðinguna. Það þýðir aftur að Tryggingastofnun þarf að breyta sínum útreikningi. Svona gengur þetta fram og til baka, þetta er bolti og með því flóknara, held ég, í kerfinu. Þeir sem vilja spreyta sig á flækjustigi ættu endilega að kynna sér þetta í hörgul.

Fyrir lífeyrisþegann er þetta náttúrlega gjörsamlega óþolandi staða. Þess vegna tóku menn þá ákvörðun að gera um þetta samkomulag, að þetta gilti í einhver ár á meðan unnið væri að lausn. Lausnin hefur ekki fundist. Ég held að menn þurfi að taka á honum stóra sínum í þessu máli og laga þetta.

Þá komum við að þeirri nefnd sem ég stýri og á að leysa mjög mörg mál. Veigamesta atriðið er náttúrlega starfsgetumatið sem hér hefur verið nefnt og allir í nefndinni eru hlynntir að verði komið á, þ.e. að horfið verði frá hinu svokallaða 75% örorkumati sem er eiginlega punktmat, því að annaðhvort er maður öryrki eða ekki, og mjög skaðlegt fyrir öryrkja. Það má eiginlega segja að það ákvæði geri það að verkum að þetta gildir: Eitt sinn öryrki, ávallt öryrki. Ekki er hægt að endurhæfa fólk, ekki með góðu viti. Það gerir alla starfsendurhæfingu og allt það mjög erfitt þegar sagt er við mann: Ég skal endurhæfa þig en ef þú endurhæfist úr 75 niður í 74 missir þú allt. Þá segir maðurinn náttúrlega: Æ, ég hef nú ekki mikinn áhuga á því.

Þetta er mjög skaðlegt kerfi og alveg með ólíkindum að það skuli hafa staðist í ein 40–50 ár og verið hér við lýði. En nefndin ætlar sem sagt að breyta því og hún mun skila áliti fyrir lok janúar, ef ég fæ einhverju ráðið, hugsanlega með fleiri en einni lausn sem er svo sem allt í lagi. Þetta var eitt verkefnið, starfsgetumatið.

Síðan er það samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða. Þá kemur akkúrat þetta inn. Spurningin er hvort maður ætli að horfa mikið til þeirra lausna sem lífeyrissjóðirnir eru með. Nefndin er ekki alveg búin að leysa þetta en ég býst við að hún muni finna á því lausn, einhvers konar lausn, að annaðhvort hafi forgang lífeyrissjóðurinn eða almannatryggingarnar.

Svo erum við með sveigjanleg starfslok sem eru óskaplega stórt mál fyrir þá sem eru sprækir og vilja vinna lengur. Ég er orðinn rúmlega sjötugur og látið ykkur ekki detta í hug að ég ætli að fara að hætta. Það eru mjög margir sem eru sprækir og vilja vinna lengur. Það er svo merkilegt að fólk vill endilega fara á lífeyri þangað til kemur að því. Þá guggna margir á því og uppgötva allt í einu að vinnan er meira en bara brauðstrit, hún er líka félagsskapur og hlutverk.

Síðan erum við líka með hækkun ellilífeyrisaldurs sem veldur byltingu í öðrum löndum en hér á landi virðast menn hafa mikinn skilning á að það eigi að hækka ellilífeyrisaldur, vegna þess að menn eru orðnir sprækari. Það eru ekki miklar deilur um þetta. Það yrði reyndar gert á löngum tíma. En það getur verið að það komi til móts við þann kostnað sem tillögur nefndarinnar valda óneitanlega, vegna þess að svokölluð framfærsluuppbót sem skerðist króna á móti krónu er líka mjög skaðlegt fyrirbæri í kerfinu og gerir það að verkum að fólk sem er búið að borga í 20–30 ár í lífeyrissjóð, sérstaklega á lágum tekjum, fær ekkert fyrir þær greiðslur. Það er náttúrlega ekki líðandi. Það er eitthvað sem þarf að laga.

Það er þetta tvennt sem nefndin er að laga, þ.e. að laga framfærsluuppbótina sem kostar feikna mikið, herra forseti, og svo hins vegar að laga þetta með 75% punktmatið á örorkunni og breyta því yfir í starfsgetumat.

Ég býst við því að nefndin haldi áfram störfum á fullu og um leið og fundalotunni hér er lokið á þriðjudaginn býst ég við að fara í gang með það og dunda mér við það fyrir jól og eftir jól og milli jóla og nýárs, þannig að við fáum lausn á því máli fyrir lok janúar.

Það sem er verið að gera hér, það er rétt sem kom fram að þetta er enn meira flækjustig en það er líka hugsað til bráðabirgða í tvö ár, eða eitt ár sýnist mér — ég var að lesa þetta fyrst núna því að ég hef verið á stöðugum fundum út af skattamálum sem er líka áhugamál mitt — til þess að fá andrými til að ná fram þeim breytingum sem nauðsynlegt er að gera.