144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á tímum eins og við erum á núna, þar sem liðin eru rúm sex ár síðan gjaldeyrishöftin voru sett á, skiptir máli að við séum öll í því að reyna að finna bestu og skynsamlegustu leiðirnar til að koma okkur út úr þeim höftum sem allra fyrst. Við þurfum að velta við hverjum steini þegar kemur að þeim möguleikum sem uppi á borði eru og þess vegna þurfum við að ræða það líka opið. Við viljum ekki fara leiðir sem munu hafa hamlandi eða kæfandi áhrif á íslenskt efnahagslíf í því að losa höftin.

Þess vegna á við að velta því upp hvaða áhrif þetta geti haft á fyrirtæki innan lands eins og hin stóru og samfélagslega mikilvægu fyrirtæki Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra kæmi með svör við þeirri vangaveltu beint. Ég skildi hann þannig að þá kæmi til greina að vera með einhvers konar undanþágur frá útgönguskatti. (Forseti hringir.) Gæti hann útskýrt það svar sitt aðeins betur?