144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við hrun haustið 2008 brutust landsmenn út úr viðjum þöggunar. Í kjölfar svo mikils áfalls hafa eðlilega verið mikil læti, mikil átök og reiði, og oft og tíðum hefur auðvitað mörgum þótt óróleikinn fullmikill. Ég vil þó halda því fram að hann sé fullkomlega eðlilegur og ekki megi heldur gleyma því að við erum að takast á um völd og eignarhald. Þetta er ekki eitthvert stjórnleysi heldur skilningur fólks á því að ef við stöndum ekki lýðræðisvaktina geta ákveðin öfl hrifsað til sín nokkuð sem almenningur í landinu á í raun og á að hafa ákvörðunarvald yfir.

Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru hér við völd árin 1995–2007. Á þeim þremur kjörtímabilum, sérstaklega undir lokin á því tímabili, var rekin hér hörð skattalækkunarstefna sem olli því að Ísland sló nánast heimsmet í aukningu ójafnaðar. Það var ekki einasta að ójöfnuður yxi vegna mismunandi atvinnutekna og fjármagnstekna heldur urðu skattkerfisbreytingar, og tekjutilfærslukerfin stuðluðu að enn frekari ójöfnuði. Núna fáum við að heyra brauðmolakenninguna útfærða þegar skattar á þá tekjuhæstu eru lækkaðir eða afnumdir en skattar á venjulegt fólk hækkaðir.

Matarskatturinn er einstaklega andstyggileg aðgerð, ekki síst í ljósi þess að ríkissjóður hefur ekki neina þörf fyrir að auka tekjur sínar með þessum hætti. Ríkisstjórnin afsalar sér ýmsum tekjum og nýtir fjármuni með ýmsum hætti þannig að þessa milljarða þurfti ekki að sækja í vasa almennings á Íslandi. Matarskatturinn lýsir fullkomnu skilningsleysi á kjörum fólks. Svo virðist sem það hvarfli ekki að þeim sem ráða ferðinni að matarinnkaup geti verið meginútgjaldaliður þegar reikningar hafa verið greiddir fyrir húsnæði, rafmagn, síma, frístundaheimili og tómstundir barna þar sem fólk hefur aðeins meira á milli handanna. Þegar þessir reikningar hafa verið greiddir er á flestum heimilum megninu af því sem eftir stendur eytt í matvöruverslunum. Að sjálfsögðu kaupir fólk ýmsan annan varning en þetta eru vörurnar sem alltaf njóta forgangs.

Framsóknarflokkurinn sýndi smátilburði til að mótmæla 12% skattinum. Hann lækkaði þann skatt í 7% rétt fyrir kosningar 2007. Flokkurinn var auðkeyptur. Skatturinn verður nú 11% og á móti voru taldar upp þrjár mótvægisaðgerðir. Sú fyrsta er hækkun barnabóta um 1 milljarð frá frumvarpinu. Hið rétta er að barnabætur halda ekki raungildi sínu miðað við árið 2013 sem er síðasta fjárlagaár ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Í öðru lagi átti að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga í lyfjum. Það er plat, það er verið að slá ryki í augun á kjósendum því að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 2015 átti að auka greiðsluþátttöku fólks um á þriðja hundrað milljónir. Það er dregið úr þeirri aukningu þannig að kostnaðarþátttaka sjúklinga í lyfjum eykst á milli fjárlagaára. Hún eykst bara ekki jafn mikið og frumvarpið sagði fyrir um. Eina raunverulega mótvægisaðgerðin er að húsaleigubætur hækka um 400 millj. kr. Það er eina aðgerð ráðherrans sem bjó til nýtt heiti á embætti sitt, félags- og húsnæðismálaráðherra. Það er eina aðgerðin í þágu leigjenda sem fram hefur komið á kjörtímabilinu og er alls ófullnægjandi þó að hún sé skref í rétta átt. En mótvægisaðgerðirnar eru sem sagt fyrir meginþorra heimila engar. Þvert á móti eru auknar álögur á heimilin, t.d. í gegnum aukna greiðsluþátttöku sjúklinga um 1.900 millj. kr., og svo er dregið úr almannaþjónustunni, svo sem í framhaldsskólunum, með Ríkisútvarpinu og á ýmsum öðrum sviðum. Úr því að Ríkisútvarpið ber á góma færir það sjónir okkar að fjölmiðlum og hlutverki þeirra sem fjórða valdsins í lýðræðissamfélagi og að listamönnum sem gegna mikilvægu hlutverki í að túlka samfélag okkar í gegnum listina, varpa á það gagnrýnu ljósi, öðruvísi ljósi. Svo hafa listamenn margt annað gildi af ýmsu öðru tagi. Þetta mikilvæga hlutverk listarinnar er auðvitað ógnandi. Þessi ríkisstjórn hefur lagt sig fram um að lítilsvirða listamenn, gera lítið úr störfum þeirra, draga úr framlögum til þeirra og láta eins og listamenn séu einn helsti kostnaðarbaggi á íslensku samfélagi en hið rétta er að við megum þakka listamönnum og menningarstofnunum fyrir að þetta land sé byggilegt.

Þegar kemur að fjölmiðlunum hafa margir ráðherrar viljað stjórna því hvað haft er eftir þeim í fjölmiðlum, hvað er talað um í fjölmiðlum, verið með ótrúlegar aðdróttanir og vegið að frelsi fjölmiðla til að fjalla um stjórnmálin. Þöggunartilburðirnir eru svo yfirgengilegir að mörgum borgaranum hrýs hugur við því samfélagi sem hér er að teikna sig upp.

Mig langar að koma inn á eitt áður en ég lýk máli mínu um hækkun á matarskatti. Frekar truflandi frétt birtist í málgagni Framsóknarflokksins, eyjan.is, um nýja reglugerð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var að gefa út. Hún tók gildi á föstudaginn var. Það er kannski mótvægisaðgerð við hækkun á matvælaverði. Samkvæmt þeirri reglugerð er nú verslunum heimilt að selja vörur sem komnar eru fram yfir „best fyrir“-dagsetningu og ekki þarf að aðgreina þær frá öðrum vörum. Neytendasamtökin gera alvarlegar athugasemdir við þetta. Sagt er að þetta sé til að koma í veg fyrir matarsóun. Það markmið er göfugt og það kann vel að vera að það sé eðlilegt að veita slíka heimild með mjög ströngum skilyrðum. Ég vitna beint í það sem haft er eftir Neytendasamtökunum á eyjan.is. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við teljum að það sé alveg lágmark að útrunnar vörur séu seldar á sérstökum stað í hverri verslun svo það fari ekki á milli mála ef neytendur eru að kaupa útrunnar vörur. Þar með er um leið komin pressa á verslanir að selja þessar vörur á ódýrara verði og neytandinn getur þá tekið upplýsta ákvörðun um að kaupa þær, en á hálfvirði. Að rugla þessu saman í sömu hillum teljum við vera fyrir neðan allar hellur.“

Það er kannski hér sem stóra mótvægisaðgerðin er komin, að rýra gæði matvörunnar sem okkur býðst í verslunum, helst án þess að við vitum af því. Ef ráðherra telur í raun og veru mikilvægt með þessum hætti að draga úr matarsóun er rétt að það sé auglýst vel gagnvart neytendum, að ráðuneytið komi því á framfæri hvar neytendur megi búast við því að vörur geti verið útrunnar og að verslanir séu skikkaðar til að merkja vörurnar sérstaklega og koma þeim fyrir á sérstökum stöðum. Hitt er blekkingaleikur sem gagnast ekki neytendum. Ég ætla að nota tækifærið og koma þökkum á framfæri við Neytendasamtökin fyrir að standa vaktina fyrir okkur neytendur. Ekki gera núverandi stjórnvöld það. Af því að ég sá þessa frétt skoðaði ég reglugerðina til að kynna mér hana, ekki bara í gegnum Neytendasamtökin, en þar sem plaggið er upp á 61 síðu hafði ég ekki tök á því nokkrum mínútum áður en ég hóf ræðuna. Það er þó ágætt að koma því á framfæri við neytendur fyrst sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer ekki hátt með þetta að kíkja vel á dagsetningarnar á matvælunum sem þeir kaupa. En þetta er framlag ríkisstjórnarinnar til að auka gæði matvæla. Þetta er neyslustefna ríkisstjórnarinnar og rímar kannski ágætlega við afnám sykurskatts, rímar ágætlega við afsiðvæðingu samfélagsins og óbilgjarnar hótanir í garð fjölmiðla sem eiga að hafa eftirlit með stjórnarathöfnum þeirra.

Að lokum harma ég að ríkisstjórnin komi fram við íbúa þessa lands með þessum hætti. Því miður er þetta frumvarp í anda annarra skilaboða og annarra athafna frá þessari ríkisstjórn. Ég fagna því að ég sé að einn framsóknarmaður ætlar að koma í andsvar við mig og kannski segja mér af hverju hann er svona ánægður að styðja matarskattinn.