144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:40]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur prýðisræðu. Ég ætlaði einmitt að ræða matarskattinn sem hv. þingmaður kom vel inn á. Um margt getum við deilt skoðunum en staðreyndin er sú að virðisaukaskattur er helsti tekjustofn ríkissjóðs, um það bil 30% af tekjum ríkissjóðs. Það hefur verið að gefa eftir og tvær skýrslur eru til grundvallar, skýrslur Efnahags- og framfarastofnunarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem staðfesta að breytinga var þörf.

Hv. þingmaður talar um matarskattinn sem andstyggilega aðgerð. Eftir sem áður er neðra þrepið það lægsta á Norðurlöndum. Hér er verið að þrengja á milli þrepa og það er til að auka skilvirkni í kerfinu.

Hv. þingmaður nefnir að hér hafi verið farið vægar í sakirnar en lagt var af stað með, þ.e. í stað 12% endaði talan í 11%. Það þýðir að 2 milljarðar eru skildir eftir í hagkerfinu neytendum til hagsbóta sem tryggir enn frekar að allar tekjutíundir koma betur út en áður. Það er ekki svo lítils vert að ná því fram og tryggja það. Auk þess mun verðlag lækka hér um 0,35% sem hlýtur að vera (Forseti hringir.) gríðarlega mikilvægt fyrir alla neytendur og skuldara.