144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það líður að lokum þessarar ágætu umræðu. Ég fjallaði í ræðu minni fyrr á fundinum nokkuð um forsendur fjárlaga sem þetta frumvarp hér snýst náttúrlega að verulegu leyti um. Sá tími fór að mestu leyti í sjálfar meginforsendur forsendnanna, hagvaxtarþáttinn og síðan nokkrar áhyggjur af verðbólguþætti málsins sömuleiðis. En við komumst kannski lítið að sjálfum efnisatriðunum í málinu, sem er svo mikilvægt að menn hverfi frá áður en til lokaafgreiðslu þess kemur, hvort sem það verður seinna á þessu kvöldi eða með morgninum.

Það sem er kannski brýnast af þeim mörgu augljósu ágöllum sem á málinu eru og álögum á sjúklinga og ýmsa aðra hópa eru þau mál sem sérstaklega snerta vinnumarkaðinn og eru til þess fallin að spilla friði þar og gera enn erfiðara fyrir um gerð kjarasamninga en nú þegar er orðið. Við erum auðvitað að fást við læknaverkfall í fyrsta sinn í sögunni og þar ber mjög mikið á milli deiluaðila og við höfum verið að fylgjast með því hvernig kröfugerðin er að verða til hjá hverju stéttarfélaginu á fætur öðru og sjá í þær kröfur sem við verður að fást á vinnumarkaði á nýju ári. Það er auðvitað eitt af helstu áhyggjuefnunum núna í lok þessa árs hversu óhönduglega hefur tekist til hjá ríkisstjórninni við það að reyna að stuðla að friði á vinnumarkaði, sem er jú svo gríðarlega mikilvægt þegar menn eru að reyna að vinna sig út úr efnahagslegum erfiðleikum eins og nú er verið að gera.

Þetta tókst bærilega, held ég að megi segja, á síðasta kjörtímabili undir forustu vinstri manna, en því miður nýttu menn ekki gullið tækifæri sem ný ríkisstjórn hafði seint á síðasta ári til að ná langtímasamningum á vinnumarkaði. Þá var það í boði og þurfti tiltölulega litlar aðgerðir af hálfu ríkisins til að koma til þess að liðka fyrir því, en því miður voru áherslurnar hér við fjárlagaafgreiðsluna fyrir ári síðan ekki á vinnandi fólk, venjulegt vinnandi fólk með meðaltekjur eða lægri tekjur og hagsmuni þess heldur voru aðrar áherslur í forgrunni í fjárlagavinnunni hjá ríkisstjórninni og það var í raun og veru með herkjum að það tækist að fá hana þó til þess að grípa til einhverra aðgerða sem gátu stuðlað að gerð skammtímasamnings. En hún var ekki tilbúin í neinar þær aðgerðir sem þurfti til þess að tryggja langvarandi frið á vinnumarkaði.

Í kjölfar þess voru síðan gerðir samningar til skemmri tíma, sem var auðvitað lakara því að í kjölfar þess þá gerir m.a. ríkið samninga við einstaka hópa þar sem launahækkanir eru langt umfram mjög hóflegar kröfur sem félög innan Alþýðusambandsins fengu framgengt í sínum kjarasamningum. Það voru margfaldar hækkanir á tiltekna hópa hjá hinu opinbera sem fylgdu í kjölfarið. Það hefur síðan riðlað því litla samræmi sem var verið að leitast við að ná í skemmri tíma samningum og veldur því að nú koma fjölmargir hópar fram með umtalsverðar kröfur um kauphækkanir. Það er að sjálfsögðu eðlilegt, við höfum dregist aftur úr í kaupmætti og við höfum notið mikils vaxtar á landsframleiðslu í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, þó að hagvöxturinn virðist vera að gefa nokkuð eftir nú eftir að ný ríkisstjórn tók við. Auðvitað kallar fólk eftir kjarabótum.

Það sem er þá sérstakt áhyggjuefni er að ríkisstjórnin sé með þrjár stórar ákvarðanir í þessu fjárlagafrumvarpi sem eru beinlínis að spilla fyrir viðleitni til þess að ná samstöðu á vinnumarkaði. Þar er í fyrsta lagi ákvörðunin um þá atvinnulausu, það eigi að henda þeim út af framfærslu núna á nýju ári. Sumir fá einhverja, þó miklu lakari, framfærslu hjá sveitarfélögunum en aðrir munu engan rétt eiga til framfærslu eftir þessa breytingu. Það er í öðru lagi þessi vonda breyting og vitlausa því að hún mun aldrei ná fram að ganga og varðar örorkubyrði lífeyrissjóðanna, (Forseti hringir.) og í þriðja lagi það sem snýr að VIRK. Úr þessu er mikilvægt að meiri hlutinn bæti núna við lokaafgreiðslu.