144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[11:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við í minni hluta velferðarnefndar flytjum þessa tillögu en með samkomulagi 3. desember 2010 á milli ríkis og lífeyrissjóða var tímabundið komið í veg fyrir víxlverkun milli örorkubóta frá almannatryggingum og örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum sem leiddi til skerðingar á framfærslu örorkulífeyrisþega. Víxlverkanir lýsa sér þannig að bætur frá almannatryggingum lækka í mörgum tilfellum vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Gagnkvæm tekjutenging almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum leiðir til tíðra breytinga á örorkulífeyrisgreiðslum og veldur óöryggi hjá örorkulífeyrisþegum. Þessi breytingartillaga okkar gengur út á að bráðabirgðaákvæðið sem leiddi af samkomulaginu frá 2010 verði framlengt um tvö ár en ákvæðið bannar lækkun á greiðslum almannatrygginga ef almennar hækkanir verða á örorkulífeyri. Með framlengingu á bráðabirgðaákvæðinu munu ríkið og lífeyrissjóðirnir hafa nægan tíma til að ljúka endanlegu samkomulagi og framfærsluréttindi örorkulífeyrisþega (Forseti hringir.) verða þá tryggð á meðan.