144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað rétt sem hæstv. ráðherra segir að það er nauðsynlegt að það sé innbyggt einhvers konar kerfi til þess að koma þessum málum í farveg. Ef ég man rétt er ætlast til þess í frumvarpinu að örnefnanefndin veiti fyrst og fremst umsagnir, ef um er að ræða einhvers konar landamerkjadeilur og það er auðvitað æskilegast að slíkar deilur séu leiddar til lykta fyrir dómstólum. Við erum þegar komin með ákveðinn farveg til þess að leysa úr slíkum málum.

Ég er alveg sammála því að það getur verið jákvætt að búa til ferli til þess að búa til ný örnefni, sérstaklega þegar um er að ræða ný náttúrufyrirbæri, eins og tókst ágætlega að gera þegar gosið á Fimmvörðuhálsi bjó til tvö ný fjöll — eða eitt nýtt fjall sem er yngra en við öll sem erum hér inni. (Gripið fram í.) Nei, nei, Það er alveg rétt, það getur verið að þörf sé á að búa til eitthvert ferli til þess að gera þetta en ég tel samt sem áður að ýmis atriði í frumvarpinu, eins og til dæmis umsagnarskylda eða einhvers konar frumkvæðisréttur hjá nefndinni, sé óþarfur. Ég tel að þar sé of langt gengið. Ég bið hæstv. ráðherra forláts á því að hafa gert hann að sérstökum fulltrúa Ráðstjórnarríkjanna sálugu hér í þingsal, en svo ég segi bara alveg eins og er finnst mér sumt í þessu máli vera skrifað af kerfinu fyrir kerfið.