144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

eftirlit með verðbreytingum.

[11:35]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í viðtali einhvern tímann fyrir jól, minnir mig, við hæstv. innanríkisráðherra að verið var að tala um hvort ekki hefði verið gáfulegt, í ljósi þeirra miklu verðbreytinga sem yrðu um áramót, að fara í eftirlit eins og gert var þegar virðisaukaskattur á mat lækkaði úr 14% í 7%. Þá fengu Neytendastofa, Neytendasamtökin og ASÍ beinlínis fjármagn til að stunda eftirlit og fylgjast með því að þessar verðbreytingar mundu skila sér til neytenda. Hæstv. ráðherra svaraði því til að hún treysti markaðnum.

Ég vil gjarnan treysta markaðnum en ég er kannski ekki alveg sammála þessu vegna þess að markaðurinn er margslungið fyrirbæri og til þess að hann virki og við getum treyst honum þarf að ríkja samkeppni og þá þurfa að vera til staðar neytendur sem eru gríðarlega vel upplýstir og meðvitaðir og taka „réttar ákvarðanir“. Verðmerkingar þurfa til dæmis að vera í mjög góðu lagi. Við gerum oft lítið úr því eftirliti sem Neytendastofa sinnir, ég heyri að Neytendastofa hefur verið dugleg að sinna eftirliti með verðmerkingum. Það skiptir mjög miklu máli fyrir verðvitund neytenda.

Við vitum að á Íslandi ríkir ekki samkeppni á öllum sviðum. Það þarf ekki annað en að lesa heimasíðu Samkeppniseftirlitsins til að sjá að það er víða sem þarf að bæta úr. Það eru fyrirtæki sem eru jafnvel í einokunarstöðu, það er fákeppnismarkaður og það er verðsamráð; ég ætla ekki að fara að hryggja okkur með að þylja upp allt sem gengið hefur yfir íslenska neytendur í því sambandi.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún sé ekki sammála mér í því að markaðurinn sjái kannski ekki alveg um sig sjálfur. Það þarf öflugt eftirlit og það þarf upplýsta og meðvitaða (Forseti hringir.) umræðu. Það er mjög mikilvægt að upplýsa neytendur og hefði gjarnan mátt fara í einhverjar aðgerðir fyrir jól í ljósi þeirra miklu verðbreytinga sem áttu sér stað.