144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

eftirlit með starfsháttum lögreglu.

450. mál
[17:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Hér er spurt um eftirlit með starfsháttum lögreglu. Spurningin er í meginatriðum í tveimur liðum.

„1. Hvenær er að vænta niðurstöðu starfshóps sem taka átti til skoðunar hvernig komið yrði á virkara eftirliti með starfsháttum lögreglu?“

Innanríkisráðuneytið hefur sett á laggirnar þann starfshóp sem hv. þingmaður spyr um. Er starfshópnum ætlað að fjalla um meðferð kvartana og kærumála á hendur lögreglu og gera tillögu að umbótum, nánar tiltekið að vinna að gerð tillagna að opnara, aðgengilegra og skilvirkara kerfi sem felst í móttöku og afgreiðslu kvartana frá borgurunum vegna starfa lögreglunnar, eftirfylgni vegna athugasemda ríkissaksóknara vegna starfa lögreglu og eftir atvikum frumkvæðiseftirlit með störfum lögreglu.

Í starfshópnum eiga sæti Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari, sem er jafnframt formaður starfshópsins, Sigurður Tómas Magnússon prófessor, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, Daði Kristjánsson saksóknari og Páll Heiðar Halldórsson lögfræðingur. Þess er að vænta að tillögur starfshópsins liggi fyrir um mitt ár 2015.

Starfshópnum er ætlað að taka mið af fyrirliggjandi frumvarpi um framtíðarskipan ákæruvalds og stofnun embættis héraðssaksóknara sem nú liggur fyrir þingi og bíður raunar 1. umr. Ég hef ekki enn mælt fyrir því máli en vonast til að geta gert það hið allra fyrsta. Í frumvarpinu er lagt til að nýju embætti héraðssaksóknara verði meðal annars ætlað að annast rannsókn þessara mála, sem sagt kæru á hendur starfsmanni lögreglu og fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans, sem ríkissaksóknari hefur annast, samkvæmt 35. gr. lögreglulaga og hv. þingmaður nefndi. Samkvæmt frumvarpinu mun héraðssaksóknari hafa lögreglumenn í sinni þjónustu vegna þessara verkefna. Gert er ráð fyrir að ákvarðanir héraðssaksóknara um niðurfellingu mála verði kæranlegar til ríkissaksóknara en í því felst mjög mikilvæg réttarbót frá því verklagi sem nú er fyrir hendi.

Eins og ég sagði eru þessar tillögur ekki fyrirliggjandi og verða ekki fyrirliggjandi fyrr en um mitt árið og þá getum við nánar gert okkur grein fyrir þeim hugmyndum sem þar er að finna.

2. „Er ráðgert að um innra eftirlit verði að ræða eða er stefnt að því að eftirlitið verði alfarið sjálfstætt og óháð löggæsluyfirvöldum?“

Því er til að svara, og það liggur í þeim orðum sem ég hef þegar farið með hér að þær niðurstöður liggja ekki fyrir og ekki er hægt að greina frá því, ég veit ekki hverjar þær verða á þessu stigi málsins. En starfshópurinn hefur sett sér þau markmið að tryggja réttaröryggi í landinu og efla öryggiskennd borgaranna. Það er meginviðfangsefni starfshópsins að líta til þess í störfum sínum og að lögreglan njóti almenns trausts og að gagnsætt og skilvirkt eftirlit sé með störfum lögreglunnar.