144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

námskostnaður.

374. mál
[17:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn Við höfum áður rætt í þingsal það mál sem hér er uppi.

Ég verð að byrja á því að leiðrétta hv. þingmann og orðalag hans í fyrirspurninni. Það er heldur verra að hv. þingmaður er nú genginn úr salnum. En það er rangt að 25 ára og eldri hafi verið útilokaðir frá bóknámi í framhaldsskólum, eins og hv. þingmaður sagði í fyrirspurn sinni. Það er algjörlega rangur skilningur á því sem hér er verið að fjalla um. Engin slík regla hefur verið sett og það er misskilningur að halda því fram að 25 ára og eldri hafi ekki aðgang að bóknámi í framhaldsskólum. Það sem hér um ræðir og hefur margsinnis verið gerð tilraun til að skýra er að þegar kemur að innritun í framhaldsskólann þá liggur til grundvallar reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla með breytingum sem gerðar voru á henni árið 2012 þar sem sett er upp forgangsröðun nemenda. Það sem liggur þar að baki er að búið er að taka ákvörðun um að hver nemandi kostar ákveðna krónutölu að meðaltali, tæplega 1,1 millj. kr. Það er ekki há tala þegar það er borið saman við þann kostnað sem er í grunnskólakerfinu en mun hærri tala á hvern nemanda en var til dæmis fyrir tveimur, þremur árum síðan.

Síðan taka framhaldsskólarnir inn nemendur í ákveðinni röð eins og reglugerðin kveður á um. Það er því mat skólameistara á hverjum tíma hversu langt niður þann forgangslista viðkomandi skólastjóri vill fara. Með öðrum orðum, ef skólameistarar vilja í einhverjum tilfellum taka inn nemendur í bóknám sem eru 25 ára og eldri er það svigrúm til staðar. (Gripið fram í: Er borgað með þeim?) Hér er spurt hvort sé borgað með þeim. Já, það er í raun og veru gert vegna þess að það var sett upp þannig að þeir fjármunir sem „spöruðust“ við þá meintu reglu sem hv. þingmaðurinn talar um, voru látnir vera áfram inni í framhaldsskólakerfinu. Við vissum það á síðasta ári að nemendum fækkaði mjög umfram það sem ætlað var, það hljóp á hundruðum nemenda sem ekki komu inn í framhaldsskólana en ætlað var að mundu koma. Við gerðum ráð fyrir því að sama mundi eiga sér stað á þessu ári. Við skildum því fjármunina eftir í skólunum fyrir þá nemendur þannig að ef þeir fara ekki í skóla eru samt sem áður fjármunir til staðar sem ætlaðir eru þeim. Það gerir það að verkum að það er töluvert svigrúm fyrir skólameistarana til að taka á móti nemendum í bóknám sem geta verið 25 ára og eldri ef þeir meta það svo að þeir hafi efni á því. Þannig er það, virðulegi forseti.

Þá bendi ég á að sá fjöldi sem við horfum á, sem gæti hafa hætt í námi en við tókum frá peninga fyrir, er mjög svipaður fjöldi og talað er um varðandi 25 ára aldurinn. Ég veit að ef hv. þingmaður sest yfir þetta þá mun hann sjá það. Ef hann vill fá gögnin þá get ég bara afhent honum þau þannig að hann geti glöggvað sig á þeim. Það er því ákveðinn grundvallarmisskilningur í þessu sem hv. þingmaður hefur mjög haldið mjög á lofti í umræðunni. Ég skil það vel af því að það getur verið pólitískt hentugt, en það er pínulítið rangt.

Síðan er gert er ráð fyrir fjármunum fyrir alla þá sem eru í verknámi og eru 25 ára og eldri.

Síðan ber að líta á það að á undanförnum árum höfum við byggt upp símenntunarkerfi, fullorðinsfræðslu sem er í sjálfu sér ekkert ólík því sem við þekkjum á öðrum Norðurlöndum. Þegar við horfum til Norðurlandanna er það víðast þannig að nemendur sem eru orðnir 24, 25 ára og eldri eru ekki í framhaldsskólunum, þeir fara í fullorðinsfræðslu, enda eru full menntafræðileg rök fyrir því. Þær upplýsingar sem liggja fyrir núna ættu ekki að koma mönnum á óvart, það er hlutfallslega mest brottfall hjá þeim nemendum sem eru 20 ára og eldri í framhaldsskólum. Af hverju skyldi það nú vera, virðulegi forseti? Það er vegna þess að skólinn, námsefnið, kennsluaðferðirnar eru miðuð við fólk á aldrinum 16–20 ára. Með því að byggja upp kerfi, eins og við höfum gert á undanförnum árum, sem er fyrir fullorðið fólk sem vill sækja sér menntun getum við tekið meira tillit til til dæmis vinnureynslu og metið hana inn. Við getum betur aðlagað námið að þörfum þeirra sem eru á vinnumarkaði og það höfum við verið að gera á undanförnum árum. Það sem liggur hér undir er að nýta það kerfi sem búið er að setja umtalsvert mikla fjármuni í á undanförnum árum. Á örfáum árum höfum við farið úr því að setja 600 millj. kr. upp í 1,4 milljarða inn í það kerfi. Á sama tíma og dregið var úr framlögum til framhaldsskólanna um 2 milljarða var framlag til símenntunarstöðvanna aukið úr 600 millj. kr. í 1,4 milljarða. (Forseti hringir.) Það er því búið að setja verulegt fjármagn í kerfið. Það sem ég legg til hér er að við nýtum það og hverfum frá því kerfi sem ekki hefur (Forseti hringir.) skilað nógu góðum árangri, sérstaklega ekki þeim sem eru eldri en 25 ára af því að við sjáum að þar (Forseti hringir.) er mesta brottfallið.