144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

fækkun nemendaígilda.

375. mál
[17:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Svo sannarlega mundi ég vilja taka umræðu um akkúrat þetta og væri það vel til fundið og ég beini því til virðulegs forseta að skoða það.

Það sem við Íslendingar þurfum að horfast í augu við er þetta: Við vitum, og þetta vita svo sem allir, að tekjur manna verða hærri að meðaltali og að öllu jöfnu eftir því sem menntun þeirra er meiri og þeir geta nýtt hana betur. Eftir því sem við menntum okkur fyrr á ævinni þýðir það að öllu jöfnu hærri ævitekjur. Því síðar sem við menntum okkur því skemmri tíma á starfsævi okkar nýtist menntunin. Þetta er auðvelt að sjá. Einstaklingur sem lýkur námi fimmtugur og er á vinnumarkaði fram til 67 ára, nýtur auðvitað menntunar sinnar í skemmri tíma en sá sem lauk menntuninni 25 ára. Þetta er nokkuð augljóst, virðulegi forseti.

Við hljótum að velta því fyrir okkur, Íslendingar, með allar okkar miklu auðlindir, hvernig standi á því að við séum með lægri meðaltekjur en margar þjóðir sem hafa úr svo miklu minni auðlindum að spila en við. Ein af ástæðunum er menntakerfi okkar. Menn verða að horfast í augu við það að í t.d. framhaldsskólanum á Íslandi er námsframvindan slökust og hægust af öllum OECD-ríkjunum og mest brottfallið. Er það eitthvað sem segir að það sé gott kerfi? Skyldi það ekki vera eitt af því sem gerir að verkum að okkar land eða samfélag okkar er ekki eins vel efnum búið eins og annars væri? Þegar kemur að því að vera „vel efnum búin“ mega menn ekki gera lítið úr því, því það er það sem við höfum á milli handanna til að kaupa lyf, til þess að veita öldrunarþjónustu o.s.frv.

Virðulegi forseti. Það skiptir máli að á næstu árum mun þeim fækka hlutfallslega sem verða á vinnumarkaði miðað við þá sem þurfa á öldrunarþjónustu að halda. Þá er eins gott að fólkið sem þá verður á vinnumarkaði verði betur menntað og skapi meiri framleiðni en við sem erum á vinnumarkaði nú vegna þess að þá mun að öðru jöfnu draga mjög úr allri þjónustu sem við getum veitt.

Þess vegna er það keppikefli að við menntum okkur sem mest, að menntun verði sem mest í landinu og þá þurfum við að nýta tímann. Ég er mjög ósammála þeirri skoðun og tel hana (Forseti hringir.) í raun mjög undarlega að halda að það sé betra að menn geri þetta síðast, (Forseti hringir.) en það er enginn að segja að eigi að loka öllum möguleikum fyrir (Forseti hringir.) fólk. Það á að byggja upp leiðir (Forseti hringir.) þannig að menn geti það, en það á að reyna (Forseti hringir.) að ýta þessu þannig að við (Forseti hringir.) gerum þetta sem fyrst, því það er best fyrir íslenska þjóð.