144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir þetta frumvarp og fyrir ræðuna. Ég tel að þetta sé mjög brýnt. Mig langar til að spyrja nokkurra spurninga sem vakna.

Þegar menn ætla að fara að setja eitthvert lágmark fyrir sveitarfélögin, sem er í raun lágmark fyrir allt velferðarkerfið, vegna þess að sveitarfélögin grípa inn í eftir að lífeyrissjóðirnir og almannatryggingar hafa veitt sínar bætur, hvaða upphæðir eru menn þá að tala um? Hefur það komið fram? Hvaða lífskjör búa að baki þeim upphæðum? Eru ferðalög til útlanda inni í þeim, er það hluti af lífskjörum? Er bíll, sem kostar 50–70 þús. kr. á mánuði, hluti af þeim lífskjörum? Hvað reikna menn með að sé algjört lágmark í þjóðfélaginu?

Ég er mjög ánægður með virknina. Það sem ég óttast með þessar tölur er að þegar farið er að gefa lágmarkstölur fyrir sveitarfélögin, sem þau munu þá taka, þá er það um leið hámark, þau munu sko ekki fara upp fyrir það, ekki endilega.

Svo er það með virknina, sem ég held að sé mjög jákvætt, það að halda í hendina á þeim sem eru atvinnulausir — eða nenna hreinlega ekki að vinna, við skulum bara orða það á íslensku, sérstaklega yngra fólk sem hefur aðlagast þeim lífskjörum sem bæturnar veita: Hvers vænta menn í þessu? Hvaða reynslu hafa menn af slíkri virkni? Ég hef grun um að hún geti verið mjög jákvæð til að hvetja menn til dáða og segi við fólk að þeir sem ekki vinna eigi helst ekki að geta það.