144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvort það er stutt á milli mín og hv. þingmanns eða mín og hæstv. ráðherra — jú, við erum sammála um það, held ég, að við viljum efla og hvetja til virkni. En okkur greinir á um þær leiðir sem við eigum að nota til að fá fólk í virkni.

Svo að ég segi það enn og aftur þá held ég að leiðin til að fá fólk í virkni sé ekki sú að setja því skilyrði sem gera að verkum að ef það fylgir þeim ekki eftir upp á punkt og prik þá verði helmingur, svo að því sé nákvæmlega haldið til haga, fjárhagsaðstoðar tekinn af því.

Ég held einmitt að til þess að koma fólki í virkni þurfi það að fá fjárhagslega aðstoð sem er þannig að hægt sé að lifa skítsæmilegu lífi af henni, afsakið orðbragðið, frú forseti, því að það er þá sem fólk er andlega og líkamlega hæft, ef svo má segja, til að taka þátt í virkninni.

Já, því miður sýnist mér bara, eftir því sem ég hugsa þetta, talsvert á milli okkar, sérstaklega þegar kemur að því að skoða hvernig við eigum að fá sem allra flesta í okkar góða samfélagi til að geta verið þátttakendur en ekki að pína fólk út í aðstæður þar sem það getur ekki gert neitt, það getur ekki tekið þátt, það getur ekki verið með. Þannig náum við engu fram. Þannig sköpum við bara dýpri vanda.