144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að það séu áhugaverðar umræður sem hér eiga sér stað um þetta mál og spurningar sem eru bornar fram þegar fólk talar um að nálgast — það er nefnilega grundvallarmunur þar á eins og ég tel að hafi verið ágætlega rætt af hv. síðasta ræðumanni.

Mig langar til að byrja á því að minna á að við Íslendingar höfum fullgilt nokkra alþjóðasáttmála, meðal annars félagssáttmála Evrópu, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og svo mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessir sáttmálar eiga að undirstrika að þjóðir tryggi íbúum sínum öryggi og velferð. Mér finnst frumvarpið kannski ekki að öllu leyti gera það. Við erum hér að tala um þá sem standa hvað verst í þjóðfélaginu. Ef við skoðum skýrslu Rauða krossins frá 2010 kemur fram að atvinnuleitendur, hvort sem það eru hjón með börn, einstæðir foreldrar, innflytjendur, börn, öryrkjar eða ungt fólk, skortir tækifæri. Við vitum líka að það eru áberandi illa staddir hópar þarna inni sem voru það fyrir hrun en það hefur ekki skánað hjá mörgum eftir hrun, það eru þeir sem ég var hér að telja upp áðan sem hafa verið án atvinnu og öryrkjar og þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð, þurfa eingöngu að reiða sig á þær tekjur.

Það er tilhneiging til að líta á þennan hóp sem vandamál sem þurfi að leysa í stað þess að horfa til þessa hóps með það fyrir augum að hjálpa honum á fætur eins og hér er að hluta til lagt, ég ætla aðeins að fara inn á það á eftir.

Við erum öll sammála um að það er mjög mikilvægur partur af okkur sem einstaklingum að hafa atvinnu. Það er ekki bara sá möguleiki að hafa laun til þess að framfleyta sér eða annað, heldur hefur það mikil áhrif á sjálfsmynd okkar, getur haft áhrif á heilsufarið og hefur áhrif á alla fjölskylduna. Við þekkjum það að ef atvinnuleysi er til langs tíma þá getur það leitt til ýmiss konar samfélagslegra erfiðleika og hér er væntanlega verið að tala um að festast ekki í fátæktargildru og reyna að finna leiðir út úr því. Það er eitt af því sem við reyndum að gera hér á síðasta kjörtímabili og þurfum að halda á lofti áfram. Þetta er tilraun hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra til þess, sýnist mér vera.

Þegar fólk er atvinnulaust og þarf að þiggja bætur, hvort sem það eru atvinnuleysisbætur eða aðstoð sveitarfélags, eru það þung spor að stíga, sérstaklega fyrir þá sem hafa aldrei þurft að upplifa það áður. Það er svo margt sem kemur þar inn í; allt sem fjölskyldan gerir, samskipti við annað fólk, þátttaka í ýmsum viðburðum, þ.e. að vera með í samfélaginu og menningunni. Það er ekki nóg að við skrimtum eða eigum fyrir mat og húsnæði, það er líka þessi þörf fyrir að hafa fjármuni til að geta verið virkur þjóðfélagsþegn og haft mannsæmandi viðurværi í samfélaginu.

Um hlutverk félagsþjónustunnar segir, með leyfi forseta:

„Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúanna og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar.“

Einstaklingar geta samkvæmt lögum leitað eftir fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu í sínu sveitarfélagi og þegar fjárhagur er bágur geta þeir fengið fyrirgreiðslu vegna fjárhagsvanda, fjölskylduerfiðleika, dagvistunar barna og húsnæðiserfiðleika.

Í frumvarpinu finnst mér sveitarfélögin vera að skorast undan þessari ábyrgð, vilja fá hana á afslætti og mér hugnast ekki að það sé gert. Það eru nokkrir þættir sem mig langar aðeins að fara ofan í. Það er meðal annars, eins og hér kom fram áðan, þessi viðmiðunarfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði að umtalsefni hvort þetta gæti orðið til þess að viðmiðunarfjárhæðin yrði hámarksfjárhæðin. Í ljósi þess að hún er ekki sú sama hjá sveitarfélögunum og afar mismunandi hefur maður tilhneigingu til þess, þar sem hún er afar lág, að halda að það geti orðið raunin.

Annað sem mér finnst vera athugunarvert í frumvarpinu og varðar þessa skerðingu, sem ég er mjög á móti, er það að fyrst megi skerða um allt að því tvo mánuði og síðan, sem er enn þá alvarlegra, að í raun eru ekki sett nein takmörk á því, eins og hæstv. ráðherra kom hér inn á, hversu oft viðkomandi geti sætt skerðingum. Vissulega þarf viðkomandi að fara í mat á vinnufærni, en það er sama, það er í raun ótakmarkað virðist vera. Þessar lágu bætur sem hv. formaður velferðarnefndar fór yfir áðan, það eru ekki háar tölur. Ef skerða má þær um helming, og þær eru kannski á milli 60 og 70 þús. kr., þá sér það hver maður að það er ekki lífsviðurværi sem nokkur maður getur haft af því.

Í 1. gr. er talað um að stuðla að samræmi milli sveitarfélaga. Það á að fara reglulega yfir þessar viðmiðunarfjárhæðir. Sveitarfélögin hafa alltaf aðgang að uppfærðum fjárhæðum o.s.frv. Ég tel að það sé til bóta að eftirlit sé með viðmiðunarfjárhæðum, en eins og ég sagði áðan þá er það áhyggjuefni að þær geti orðið of lágar.

Svo er það þessi eilífi núans um það hvort fjárhagsbætur eigi að vera jafn háar eða lágar og þær eru, þ.e. að þær verði til þess að hvetja fólk til að fara út á vinnumarkaðinn, en þá má auðvitað segja að lágmarkslaunin eru jú afskaplega lág.

Mig langaði til að gera annað að aðalumtalsefni hér, af því að við vitum að kjör þessa fólks sem lifir á þessum bótum eru mjög bág. Í 2. gr. er talað um að fólk fari í gegnum mjög stífan ramma, fái einstaklingsleiðsögn, að því sé fylgt eftir o.s.frv. Í staðinn fyrir að setja á þetta neikvæð formerki, sem hér er verið að gera með því að leggja til að ef fólk þiggur það ekki þá skerðist bæturnar, spyr ég: Hvað mælir gegn því að við búum til þetta úrræði? Þau eru örugglega sums staðar til og hér eru tekin dæmi um það. En hvað mælir gegn því að við förum í þessa aðstoð og þessi úrræði, þ.e. að sveitarfélögin geri það, án þess að skerða bæturnar? Þetta á auðvitað að virka sem hvati. Fólk verður, það neyðist til að þiggja þessi úrræði, en er það jákvætt að neyða fólk til einhverra svona úrlausna?

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að fólk sem af einhverjum aðilum er metið vinnufært á erfitt með að koma sér í gang eftir tiltekinn tíma. Það getur margt legið þar að baki. Ég held að við eigum frekar að horfa til þess að þessi virkni geti orðið án þess að skapa skerðingu.

Frumvarpið á að taka á því að auka samstarf á milli Vinnumálastofnunar og Félagsþjónustunnar um þetta mat og mér finnst ekkert að því. Við höfum auðvitað úrræði sem mismikil ánægja er með, en við höfum samt sem áður reynslu eins og hér var nefnt áðan, bæði Stíg, VIRK o.fl.

Ég velti því fyrir mér þegar ég las þetta, af því að verið er að tala um forsendur í kostnaðarmati, að þegar ríkisstjórnin ákveður með skömmum fyrirvara, í tengslum við fjárlögin, að skerða atvinnuleysisbótatímabilið — ég veit ekki hvort menn héldu að þetta fólk mundi hverfa. Hvert héldu þeir sem skipa þessa ríkisstjórn að fólk sem hyrfi af bótum færi? Það hvarflar að manni að þetta sé ákveðin mótvægisaðgerð, vegna þess að sveitarfélögin mótmæltu því hástöfum, sögðu að þessi stytting yrði 500 millj. kr. kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin. Hér er verið að leggja til að sparnaður hljótist af þessu fyrir sveitarfélögin. Á sama tíma á að fjölga ráðgjöfum innan félagsþjónustunnar um 25 til 30 manns. Ég vil bara fjölga þessu fólki óháð því að bætur verði skertar einmitt til þess að ná markmiðunum fram, þ.e. að koma fólki í aukna virkni.

Ég vil í þessu samhengi minna á að ég hef fengið bæði símtöl og tölvupósta — ég veit ekki um aðra þingmenn — frá konum sem komnar eru á ákveðinn aldur, eru að upplifa það í fyrsta skipti núna að vera atvinnulausar, vilja ekki vera á bótum en fá ekki vinnu vegna þess að kennitalan ræður. Það er ekki fólk sem vill ekki vinna. Við erum því að glíma við ýmiss konar vandamál í tengslum við atvinnuleysi. Það er ekki bara það að vinnufærir nenni ekki að vinna eða að þeir lendi svo lengi inni á bótum að engin önnur leið sé fær, að þeir festist þar vegna þess að þeir hafi sig ekki í gang. Það eru líka svona hlutir, og konur ekki síst eru að lenda illa í þessu.

Það voru kannski karlar sem lentu í þessu fyrst eftir hrunið og við þekkjum þá sögu og þeir fóru töluvert til útlanda, en það var ekki vegna kennitölunnar, það var kannski vegna þess að atvinnugeirinn dróst saman og breyttist.

Hér er vitnað í verkefnið í Hafnarfirði og talað um að brottfallsástæður hafi ekki verið greindar. Það væri áhugavert að sjá það gert áður en farið er í svona aðgerðir. Hér eru vísbendingar þar sem talað er um að þetta gæti náð til fimmtungs umsækjenda. Mér finnst að þetta sé eitt af því sem við þurfum að greina.

Í lokin langar mig að fara ofan í gildin, hvaða hagsmuni eigi að hafa að leiðarljósi og í hvers konar samfélagi við séum. Fræðimaður einn hefur sagt að komast megi að réttlátustu lausn málanna svona almennt með því að hver og einn setji sig í spor allra sem hlut eiga að máli, þ.e. með því að ímynda sér að við gætum sjálf lent í erfiðri aðstöðu og átt á hættu að verða undir. Það gæti leitt til þess að við kæmumst að réttlátri niðurstöðu við lausn mála. Ég er svo sem ekki fædd með gullskeið í munni en hef sem betur fer heldur ekki þurft að búa við fátækt. Þegar maður þekkir fólk sem hefur búið við fátækt og veit hvernig það kemur niður á fólki, eins og ég sagði áðan í hinu víðasta samhengi, finnst mér að við séum að höggva í þann knérunn, það er fátækasta fólkið sem við erum hér að tala um. Mér finnst að það sé ekki eitthvað sem við eigum að leggja upp með.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hún ekki mögulegt að það geti leitt til árangurs — ef viðkomandi skráir sig hjá Félagsþjónustunni, er að detta út af atvinnuleysisbótum og hefur það skítt, það kemur jú fram að maður þarf að hafa það andskoti skítt, fyrirgefið orðbragðið, til þess að fá þessar bætur — hjá stærstum hluta þessa fólks ef viðkomandi er um leið og hann skráir sig boðið upp á svona viðtöl og meðferð og allt það sem hér hefur komið fram (Forseti hringir.) að því undanskildu að ef hann þiggur það ekki þá verða bætur hans skertar.