144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég sé þetta í beinu samhengi við skerðingu á atvinnuleysisbótum sem kom eins og reiðarslag inn í líf fólks með tíu daga fyrirvara í kringum áramótin. Ég mótmælti því mjög út af því að ég vissi að þetta mundi gerast. Það er alveg nógu erfitt að fá félagsaðstoð hjá sveitarfélögunum, það er alveg nógu erfitt fyrir. Einstaklingur má ekki vera giftur manneskju sem er með einhverjar smávægilegar tekjur, hann má ekki eiga í húsnæði, þá á hann ekki rétt á aðstoð.

Núna er verið að yfirfæra ábyrgð sem mér finnst mjög alvarlegt mál. Ég veit um bæði konur og karla sem eru komin á ákveðinn aldur og fá ekki vinnu þótt þau geri allt rétt. Þau sækja um og sækja um og sækja um og fá ekki vinnu. Hvað á að gera við þetta fólk? Eigum við að éta það?