144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:04]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðuna og kem hingað upp til að svara þeim spurningum sem hún beindi til mín. Eins og kemur fram í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessar leiðbeinandi reglur verði gefnar út að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ég held að mikilvægt sé þegar við útbúum reglurnar að við horfum til meðal annars þeirrar miklu og góðu vinnu sem hefur verið unnin í ráðuneytinu varðandi neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi. Eitt af því sem reyndist hvað erfiðast fyrir þann hóp var að meta það út frá húsnæðiskostnaðinum, því að hann er svo ofboðslega mismunandi. Við höfum rekið okkur á og þurft að gefa sveitarfélögunum ákveðnar leiðbeiningar því að tvö sveitarfélög geta rekið sameiginlega félagsþjónustu en verið hvort með sína regluna um framfærsluaðstoðina, þótt sveitarfélögin séu að mörgu leyti sambærileg. Við höfum ekki getað fundið ástæðuna og hefur verið óskað eftir að rökstuðningi fyrir þessum mismunandi reglum, því að í raun og veru ætti kostnaðurinn að vera mjög sambærilegur fyrir fólk sem leitar til þeirra sveitarfélaga sem ég nefni sem dæmi.

Við höfum gefið út leiðbeinandi reglur vegna kvótaflóttamanna eða hælisleitenda til sveitarfélaganna og þar höfum við horft á reglur Reykjavíkurborgar. Ég hafði alla vega þær upplýsingar að þegar ráðuneytið gaf út leiðbeiningar var það einna helst Reykjavíkurborg sem fylgdi þeim leiðbeiningum frá ráðuneytinu. Ég held því að þessi atriði sem þingmaðurinn nefnir séu eitt af því sem er mjög mikilvægt að velferðarnefnd fjalli um og komi þá með ábendingar til mín, ef niðurstaðan verður sú að afgreiða þetta mál áfram eins og ég vona sannarlega að verði, um hvaða atriði það eru sem þarf að huga sérstaklega að. Rétt eins og þingmaðurinn sagði (Forseti hringir.) geta aðstæður verið mismunandi, en þær eru (Forseti hringir.) samt kannski ekki það mismunandi.