144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller gefur hér tóninn fyrir Samfylkinguna um gistináttagjald. Hann talaði í ræðu sinni um að lagfæra þá vankanta sem væru á gistináttagjaldinu til þess að hægt væri að fara þá leið til að ná í þá 4,5–5 milljarða sem náttúrupassanum er ætlað að gera á næstu þremur árum. Hv. þingmaður taldi líka til ýmsar stórborgir sem leggja á gistináttagjald. Hér er gistináttagjaldið 100 kr. Það hefur komið fram í umræðunni um gjald á ferðamenn að þeir sem eru með minni gistiheimili og gistiaðstöðu vítt og breitt um landið telja gistináttagjaldið koma illa niður við slíkan rekstur, en stóru hótelin sem hafa kannski meira umleikis og annars konar rekstur hafa sjálfsagt aðra sýn á það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Ég segi að hv. þingmaður hafi gefið tóninn fyrir hönd Samfylkingarinnar um gistináttagjaldið og spyr: Er þá hugsunin að leggja á misháa krónutölu eftir því hvar á landinu er gist, eftir því hvers konar gistingu er um að ræða, eftir því hver sá er sem kaupir gistinguna? Er hv. þingmaður að slá taktinn fyrir Samfylkinguna í þá veru að þetta gjald muni allir greiða, að sjálfsögðu, erlendir ferðamenn jafnt sem innlendir, og væntanlega verði í því, eins og hv. þingmaður sagði, að lagfæra vankantana og þá væru hugsanlega tekin inn meiri gjöld og á annan hátt af skemmtiferðaskipum (Forseti hringir.) sem hér sigla og sitja í höfn?