144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:47]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður minntist hér á tvö grundvallaratriði, annars vegar almannaréttinn og hins vegar fyrir hvað við værum að borga. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að það er alveg hugmynd að greiða fyrir það að leggja bíl á bílastæði og greiða fyrir þjónustu þegar maður fer á snyrtingu og annað slíkt. Ég vildi nefna þriðja grundvallaratriðið, sem mér finnst koma skýrt fram í frumvarpinu, og er grundvallarmunur á því hvernig við nálgumst náttúruna og fyrir hvað á að borga, þ.e. spurninguna: Hver á að borga?

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún gæti deilt þeirri hugsun með mér að hjá þessari ríkisstjórn, eins og hún fer fram, er áherslan alltaf lögð á það að einstaklingar, fólk, borgi. Þeir sem hins vegar nýta auðlindina, sem í þessu tilfelli eru ferðaþjónustufyrirtækin, þurfa ekki að borga. Það er alltaf fólkið sem borgar. Þetta sýnir sig, eins og kom fram í andsvari hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, bæði í umgengni okkar við fiskinn í sjónum og mér finnst það lýsa sér mjög sterkt í þessu frumvarpi, menn (Forseti hringir.) treysta sér ekki til að láta atvinnuvegina borga sem græða á því að nýta náttúruna. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort hún geti deilt þessum hugsunum með mér.