144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða ræðu og kannski örlítið aðra vinkla en komið hafa fram hér í morgun eða það sem af er þessari umræðu. Þar sem ég sit í fjárlaganefnd fannst mér ágætt að vakin væri athygli á þessu með fjárfestingaráætlunina, hvernig hún var fjármögnuð, þ.e. sá hluti sem við erum kannski að fjalla um hér, innviðir ferðaþjónustunnar. Það var löngum sagt af núverandi ríkisstjórn að það hafi ekki verið fjármagn, að þetta hafi bara verið loft. En það var það alls ekki. Þetta loft notuðu þeir, eins og hv. þingmaður kom hér inn á, í umdeilda aðgerð. Þannig að það eru til peningar. Þetta snýst um það hvernig þeim er ráðstafað.

Hér er mikið talað um að ferðaþjónustan sé orðin stór og mikilvæg og allt það. Telur þingmaðurinn kannski að ríkið eigi að styðja við uppbyggingu innviða vegna þess að greinin hafi vaxið svo hratt í tiltekinn tíma? Hann talaði um blandaða leið, mundi hann kannski vilja sjá því blandað saman á einhvern hátt að ferðaþjónustuaðilarnir borguðu hluta af þessu gjaldi, þ.e. þeir sem eru að selja aðganginn að auðlindunum okkar.

Hér í morgun var nefnt að kannski hefði verið skynsamlegt að koma á fót auðlindasjóði fyrir mörgum árum. Ég held að við getum verið sammála um það. En væri hægt að fara blandaða leið, meðan verið er að ná upp því sem við þurfum, til að laga helstu sárin í ferðaþjónustunni með uppbyggingu innviða, að ríkið kæmi þar að einhverju leyti inn og svo yrði tekið auðlindagjald sem við gætum fundið út, hvort sem það væri gistináttaskattur eða annað.