144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:12]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp sýnir að sú ríkisstjórn sem nú situr vill frekar hagnýta manneskjur en máttarstólpa, vill frekar seilast í vasa almennings en láta öflugar atvinnugreinar standa skil á nýtingu þjóðarauðlinda.

Frá blautu barnsbeini höfum við Íslendingar verið alin upp við það að við eigum landið, að íslensk náttúra sé hluti af okkar arfleifð, auðæfi sem ekki verði af okkur tekin og þangað getum við leitað til að hlaða batteríin, eins og það er kallað, notið friðar og fegurðar sem við eigum sjálf óháð þjóðfélagsstöðu okkar og efnahag að öðru leyti.

Nú er annað uppi á teningnum. Verði þetta frumvarp að lögum verða Íslendingar réttlausir til umgengni við náttúruperlur landsins nema gjald komi fyrir. Það nægir sem sagt ekki lengur að vera skattgreiðandi í þessu landi okkar til að teljast eigandi þess. Nú er maður skilgreindur sem ferðamaður hvar sem maður stígur niður fæti utan túngarðsins heima hjá sér. Það er breyting sem snertir bæði sjálfsmynd okkar og menningarvitund. Það er eins og sé verið að rjúfa einhver heilög vé, slíta einhvern silfurþráð sem alltaf hefur verið í þjóðarvitundinni.

Verði þetta að veruleika munu söngvar okkar og þjóðkvæði skipta litum. Þýðing þeirra mun fölna og visna. Ég minni á ljóðlínurnar sem svo margir elska eftir Guðmund Böðvarsson í ljóðinu Fylgd, og mér finnst við hæfi, virðulegi forseti, sé þetta að verða að veruleika, að hafa þessar ljóðlínur yfir, með þínu leyfi, meðan þær hafa einhverja þýðingu. Í þessu ljóði tekur faðirinn soninn litla við hönd og sýnir honum landið og segir:

Komdu, litli ljúfur,

labbi, pabba stúfur,

látum draumsins dúfur

dvelja inni um sinn

— heiður er himinninn.

Blærinn faðmar bæinn,

býður út í daginn.

Komdu, kalli minn.

Göngum upp með ánni

inn hjá mosaflánni,

fram með gljúfragjánni

gegnum móans lyng,

— heyrirðu hvað ég syng —

líkt og lambamóðir

leiti á fornar slóðir

innst í hlíðarhring.

Héðan sérðu hafið

hvítum ljóma vafið,

það á geymt og grafið

gull og perluskel,

ef þú veiðir vel.

En frammi á fjöllum háum

fjarri sævi bláum

sefur gamalt sel.

Glitrar grund og vangur,

glóir sund og drangur.

Litli ferðalangur

láttu vakna nú

þína tryggð og trú.

— Lind í lautu streymir,

lyng á heiði dreymir,

— þetta land átt þú.

Hér bjó afi og amma

eins og pabbi og mamma.

Eina ævi og skamma

eignast hver um sig

— stundum þröngan stig.

En þú átt að muna

alla tilveruna,

að þetta land á þig.

Ef að illar vættir

inn um myrkragættir

bjóða svikasættir

svo sem löngum ber

við í heimi hér,

þá er ei þörf að velja:

þú mátt aldrei selja

það úr hendi þér.

Göngum langar leiðir,

landið faðminn breiðir.

Allar götur greiðir

gamla landið mitt,

sýnir hjarta sitt.

Mundu, mömmu ljúfur,

mundu, pabba stúfur,

að þetta er landið þitt.

Herra forseti. Það var gaman og gott að geta farið með þennan texta vegna þess að þetta er kjarninn í viðhorfi velflestra Íslendinga til landsins og segir okkur líka hvaða hughrif vakna í hugum okkar þegar við svo stöndum frammi fyrir þeim hugmyndum sem hér hafa verið kynntar um náttúrupassann. Sú hugmynd að þeir borgi sem njóti, eins og ráðherrann orðaði það í framsöguræðu sinni í morgun, stangast á við þá réttmætiskröfu að þeir borgi sem nýti, að þeir sem hafa tekjur af nýtingu náttúrunnar, hvort sem sú nýting er í formi orkunýtingar og virkjana, fiskveiða og útgerðar eða ferðaþjónustu í víðum skilningi, að þeir sem tekjurnar hafa standi straum af þeirri uppbyggingu sem þarf að ráðast í til að verja auðlindirnar og tryggja að þær verði áfram við lýði.

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein í landinu sem hefur notið mests vaxtar á undanförnum árum og er nú þegar orðin undirstöðuatvinnugrein, grein sem veltir milljörðum króna og er, að talið er, komin fram úr sjávarútveginum, hvernig sem það er nú reiknað, ég kann ekki þær kúnstir. En ferðaþjónustan er að minnsta kosti ein af okkar undirstöðuatvinnugreinum og á auðvitað sjálf að standa straum af uppbyggingu ferðamannastaða, ekki síst þau fyrirtæki sem hafa beinar tekjur af því að gera út á náttúruperlur og notfæra sér slíka staði sem ær og kýr, sem sínar mjólkurkýr. Ferðaþjónustan er tilbúin að borga, hún hefur sjálf lagt það til að tekna verði aflað gegnum gistináttaskatttinn, en á það er ekki hlustað.

Þeir borga sem nýta. Það væri mun betra slagorð í þessu máli en að vísa til þeirra sem njóta. Þeir sem njóta eru ekki hvað síst íslenskur almenningur sem nú þegar borgar skatta sína og skyldur í samfélagið fyrir börn sín og sjálfa sig. En það virðist vera hjartans mál fyrir þá ríkisstjórn sem nú situr að seilast í vasa almennings, mjólka manneskjur en ekki máttarstólpa.

Ég hef stundum rætt á þessum vettvangi um heildstæða auðlindanýtingu og ég vil taka þá umræðu upp eina ferðina enn. Og af því að hæstv. innanríkisráðherra, sem er nú því miður ekki stödd í salnum til að hlusta á ræðu mína og ég harma það að sjálfsögðu, lét þess getið fyrr í dag að hana ræki ekki minni til þess að ég hefði fært það mál í tal áður í þinginu þá vil ég benda ráðherranum á að lesa ræður mínar betur því að ég færði það mál fyrst í tal 16. nóvermber 2009, hef rætt það árlega síðan þegar ég hef verið á þingi, líklega síðast í marsmánuði 2012.

Ég nefndi fyrr í morgun skýrslu auðlindastefnunefndar árið 2012 þar sem lögð var áhersla á hina samfélagslegu vídd sjálfbærrar þróunar. Auðlindastefnunefnd hvatti til þess að litið yrði til þátta á borð við jöfnuð og lýðræðisleg yfirráð auðlinda, að gætt yrði að vaxtarmöguleikum þeirra greina sem byggja beint á auðlindanýtingu og hugað að rétti komandi kynslóða.

Þessi hugsun hefur því miður ekki ráðið för við ákvarðanir og tillöguflutning ráðamanna. Og nú stöndum við í þeim vandræðalegu sporum að taka afstöðu til frumvarps sem gengur út á að Íslendingar borgi fyrir það að fá að ganga um landið sitt. Er nema von þó að gárungarnir tali um reisupassann en ekki náttúrupassann í þessari umræðu.

Hér á Íslandi eigum við engan auðlindasjóð og afrakstur auðlinda og meðferð þeirra tekna sem af auðlindum spretta er ekki á einum stað, því miður. Grunnhugmyndin um auðlindasjóð felur í sér að auðlindir landsins séu allar lýstar þjóðareign og að þeir sem nýta þær í atvinnuskyni greiði fyrir það leigugjald eða auðlindagjald, að nýtingarleyfi auðlindanna sé úthlutað eftir opnum leiðum og leikreglum á grundvelli útboða, í stað þess eins og nú hefur verið t.d. varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar, að gæðunum sé úthlutað til afmarkaðs hóps án þess að opnar leikreglur séu þar í gildi.

Grunnhugmyndin, sama um hvaða auðlindir er verið að ræða, er sú að þetta séu þjóðarauðlindir, við úthlutun þeirra gildi opnar leikreglur og jafnræði og að gjald komi fyrir, sem myndi síðan sjóð, auðlindasjóð sem hafi samfélagslegum verkefnum að sinna, t.d. innviðauppbyggingu eins og samgönguuppbyggingu, byggðamálefni ýmis og ekki síst verndun ferðamannastaða, ef af þessu yrði. Þetta er hugsun sem felur í sér samfélagslega ábyrgð þeirra sem nýta auðlindirnar og hafa af þeim tekjur, hafa jafnvel af þeim ofsagróða, af auðlindum sem almenningur á Íslandi hefur frá blautu barnsbeini verið alinn upp við að sé hans eigin.

Mundu, mömmu ljúfur, mundu, pabba stúfur að þetta er landið þitt, er sungið við börnin. Og viljum við virkilega svipta þessi orð merkingu sinni? Ekki ég.