144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er svolítil hártogun með gistináttagjaldið. Gistináttagjaldið er náttúrlega gjald sem ferðaþjónustan stendur skil á á grundvelli þess tekjustreymis sem hún hefur af ferðamönnum, því fleiri ferðamenn í gistiþjónustu því hærra gistináttagjald, þannig að greinin stendur vissulega skil á þeim peningum. (Gripið fram í.) Þeir fjármunir koma inn til greinarinnar á grundvelli þeirra viðskipta sem menn hafa í ferðaþjónustunni. Á þann hátt má náttúrlega segja að greinin standi sjálf skil á þeim tekjum í ríkissjóð.

Ég mundi gjarnan frekar vilja ræða ekki síður hugmyndina um að ferðaþjónustan, eins og aðrir auðlindanýtendur á Íslandi, greiði auðlindagjald, og það var nú meginþunginn í ræðu minni, fyrir að fá að nýta íslenskar náttúruperlur í atvinnuskyni og að þær tekjur mundu þá ásamt tekjum af nýtingu annarra auðlinda verða uppistaða í sjóði sem hægt væri að nýta til samfélagslegra verkefna.