144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil biðja hv. 1. þm. Reykv. s. að tala skýrar um það hvort hún styður fram komna tillögu eða hvort hún telur að hún komi ekki til greina. Hv. þingmaður hefur getið sér orð fyrir að tala fyrir sjónarmiðum um frjálshyggju og ég hefði við fyrstu sýn haldið að sjónarmið um frelsi einstaklingsins hlytu að varna því að þingmaðurinn gæti stutt það að ríkisvaldið meinaði einstaklingum frjálsa för um land sitt umfram það sem einkaeignarrétturinn takmarkar, og hvað þá að ríkið væri með einhvers konar skattheimtu af frjálsri för manna eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég vil sérstaklega spyrja hv. þingmann um eftirlitsþáttinn. Ráðherrann sagði í morgun að við þekktum þetta fyrirkomulag eftirlits, þetta væri eins og stöðumælaverðirnir í póstnúmeri hv. þingmanns, 101 Reykjavík. Finnst hv. þingmanni það góð hugmynd að flytja stöðumælaverðina út úr póstnúmeri 101 og hafa þá úti um allar koppagrundir? Er það í samræmi við sjónarmið hv. þingmanns um frjálshyggju að hér eigi að vera eftirlitssveitir á vegum ríkisins að fylgjast með ferðum einstaklinga um náttúru landsins og reyna að standa þá að verki við skoða náttúru landsins? Og hvað telur hv. þingmaður að eigi að gera við einstakling sem til að mynda neitar að greiða þetta gjald, eins og einn ágætur kollegi okkar, þingmaður, hefur þegar lýst yfir að hann muni gera? Telur þingmaðurinn að það komi til greina að svipta fólk eignum sínum fyrir það að gangast ekki undir þessa gjaldtöku ríkisins eða hvernig telur þingmaðurinn að framfylgja eigi sektarákvæðum í frumvarpinu?