144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að segja að ég er ekki hlynnt þessari leið, ég er ekki hlynnt náttúrupassa. Ég er ekki hlynnt skyndilausnum eða lausnum sem fela í sér hærra gistináttagjald eða komugjöld eða eitthvað í þá veru. Ég er aftur á móti hlynnt því að við notum þann virðisauka sem við fáum út af auknum fjölda ferðamanna í sameiginlega sjóði okkar og afmörkum tekjustofn í uppbyggingu á ferðamannastöðum. Í raun og veru skil ég ekki af hverju ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar endurbætur og farið í uppbyggingu á ferðamannastöðum miðað við þann aukna fjölda ferðamanna sem hér hefur komið og með þeirri aukningu höfum við fengið mikið af peningum í okkar matarbú, okkar sameiginlegu sjóði.

Ég vara við því að búa til enn einn sérskattinn, því að þetta er bara skattur og ekkert annað og við skulum bara kalla hlutina réttum nöfnum. Þetta er náttúruskattur sem kemur mér verulega á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skuli leggja til. Mér finnst að það væri í raun og veru alls enginn álitshnekkir fyrir hæstv. ráðherra að taka við breytingum á frumvarpinu þar sem lögð væri til önnur leið. Þessi önnur leið er langeinföldust, og ég veit að t.d. Sjálfstæðisflokkurinn er mjög hlynntur einföldu skattkerfi, og því finnst mér mjög skrýtið að Sjálfstæðisflokkurinn leggi þetta fram. Það er ekki í samræmi við grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna kom mér á óvart þegar því var haldið til streitu að fara þessa leið þrátt fyrir að þetta væri alls ekki sú leið sem varð ofan á í skoðanakönnun sem gerð var hjá aðalhagsmunaðilanum, félagi aðila í ferðaþjónustu. Þetta var að mig minnir annaðhvort næstsíðasti eða síðasti kosturinn af þeim sem voru valdir í þeirri skoðanakönnun.

Ég er persónulega mjög hlynnt einföldun, t.d. á skattkerfinu og það eru Píratar almennt séð. Þess vegna viljum við endilega hvetja Sjálfstæðisflokkinn til þess að endurskoða afstöðu sína í þessu máli. Það er líka annað sem mér finnst ákaflega undarlegt í þessari tillögu, og ekki hefur verið hægt að útskýra það fyrir mér eða öðrum sem hér búa hvernig framkvæmd náttúrupassans á að vera. Talað var um að það eigi að hafa náttúruverði, og mér finnst með ólíkindum að við sem höfum barist fyrir friðhelgi einkalífs, þar á meðal hv. þm. Pétur H. Blöndal, skulum þurfa að kljást við að friðhelgi okkar verði rofin með því að einhverjir aðilar verði vappandi úti um grænar grundir að fylgjast með því hvert við séum að fara á landinu. Síðan er það framkvæmd sekta. Á það að vera þannig að hægt sé að gera fólk eignalaust ef það neitar að borga fyrir að fá að upplifa það sem forfeður okkar hafa barist fyrir og þótt sjálfsagt mál, sem er almannarétturinn? Á fólk kannski að missa húsið ofan af sér út af því að það tekur ekki þátt í þessum gjörningi, þessum nýja skatti sjálfstæðismanna?

Það er annað sem mér finnst líka dálítið athyglisvert við þetta mál allt saman, en svo virðist sem að það sé jafnvel ekki meiri hluti fyrir því á Alþingi. Það sem maður upplifir, ef ég tala bara hreint út, er að þetta sé málamyndagjörningur, maður finnur það, út af því að málið var komið mjög langt í ráðuneytinu. Maður finnur að hæstv. ráðherra er ekki endilega með hjartað í þessu, þetta er ekki baráttumál. Ég þekki ágætlega til hv. þingmanns og hæstv. ráðherra eftir að hafa verið á Alþingi með þingmanninum í hartnær sex ár og ég veit hvenær þingmaðurinn hefur baráttuhug í málum. Þetta er greinilega ekki eitt af þeim málum, það er alveg augljóst. Það er því hálfur hugur í þessu og ég held að við ættum kannski ekki að hafa miklar áhyggjur, ég treysti því að nefndin sem fær þetta til umfjöllunar muni gera þær nauðsynlegu breytingar á frumvarpinu sem til þarf. Kannski mun þetta hreinlega fá að lognast út af og deyja í nefnd eins og mörg ónýt mál sem hér er mælt fyrir, sum mál fá að deyja ákveðnum líknardauða í nefndum. Ég held að farsælast væri að þetta fengi þannig líknardauða, af því að málið er þess eðlis að enginn sem ég þekki, ekki nokkur maður getur sagt það við mig af heilum hug að hann sé hlynntur því að við þurfum að borga fyrir að njóta náttúrunnar.

Ég fer oft á Þingvelli, ég fer fjallabaksleiðina á Þingvelli, langa göngustíginn sem er ekki túristagöngustígurinn. Verða þá einhverjir verðir þar þegar maður kemur upp á stíginn? Það er búið að búa til gangstíg þarna þegar maður er búinn að labba svolitla stund, ég fer oft þangað í berjamó og tek son minn með mér. Þurfum við þá að passa að stíga ekki upp á gangstíginn eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir benti á? Ég skil ekki hvernig á að vera hægt að framkvæma þetta, ég skil það ekki. Verða verðir á öllum göngustígum landsins í náttúrunni sem fylgjast með því að enginn gangi nú eftir stígunum án þess að borga fyrir það? Mér finnst þetta vera versta leiðin.

Ég verð að viðurkenna að fyrst þegar verið var að tala um náttúrupassa að þá skoðaði ég málið og athugaði hvort það væri eitthvert vit í þessu. Og eftir því sem maður heyrði meira um hvað það væri ómögulegt að framkvæma þetta án þess að brjóta hreinlega á grundvallartilfinningunni fyrir því að búa á Íslandi, á þeim grundvallarmannréttindum að geta farið út í náttúruna og verið í friði, fengið að vera hluti af þeirri náttúru án þess að þurfa að óttast það að einhver kæmi með posa eða eitthvað, þá sannfærðist ég um að þetta væri slæm leið. Ég veit ekki hvernig þeir ætla að gera þetta. Verða þeir með skanna? Hvernig á að framkvæma þetta, verða menn með skanna til að tékka á þessu og verður fylgst með manni? Já, hún Birgitta fór á Þingvelli, og svo fór hún út á Snæfellsnes og aftur í Almannagjá og svo fór hún hingað og þangað. Hvernig verður þetta? Og hvað ef fólk neitar að taka þátt í þessari vitleysu? Mér þætti mjög gott að fá svör við því, ég sé að það eru einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa beðið um að koma í andsvör við mig, og mér þætti mjög gott ef þeir gætu svarað því. Ég ætla til dæmis ekki að taka þátt í þessu, ég bara ætla ekki að taka þátt í þessari vitleysu og ég veit að mjög margir aðrir Íslendingar ætla ekki að taka þátt í þessari vitleysu. Og ef lög eru svo vond að þau misbjóða meginþorra þjóðarinnar þá er ekkert sem segir að þingmenn eða þjóðin eigi að fylgja þeim. Ef svona ónýt lög yrðu sett væri grafið undan trúverðugleika lagasetningar í landinu, það er ljóst. Og það kemur mér á óvart að íhaldsmenn séu hlynntir því.

Ég tek undir þá umræðu sem hér hefur komið fram um að það er sorglegt að hér hafi ekki verið settur á fót auðlindasjóður. En maður getur lært af mistökum fortíðarinnar og stofnað slíkan sjóð, t.d. með því að afmarka tekjustofninn sem kemur í gegnum virðisaukann sem við fáum út af mikilli aukningu ferðamanna. Ég er alveg sammála því að hér hefur ríkt sinnuleysi gagnvart uppbyggingu á ferðamannastöðum, ég hef djúpstæðar áhyggjur af því og þetta er skammarlegt og ég skammast mín fyrir ástandið. Ég hitti mjög mikið af fólki sem kemur hingað til lands og maður reynir að vísa því eitthvert annað en á þessa helstu staði, því að þeir eru orðnir þannig að þeir anna ekki eftirspurn. Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Rósu Bjarkar Bynjólfsdóttur að það skortir alvarlega skýra framtíðarsýn um hvert við stefnum í þessum málaflokki.

Það hafa verið ýmsar pælingar um að best væri að fá bara ríka ferðamenn sem eyða miklu á tilteknum stöðum. En það gleymist oft að gríðarlega mikill fjöldi af ferðafólki kemur bara til Reykjavíkur, kemur bara á tónlistarhátíðir og kynnir sér menningu landsins og stoppar bara stutt við. Þeir koma líka með peninga í sameiginlega sjóði okkar. Hvernig á að vera hægt að réttlæta það að taka fjármuni af hverjum einasta Íslendingi, sem er þó ekki meira en 1 milljarður samkvæmt því sem hér hefur komið fram, 1 milljarður? Og hvað ætli þessi framkvæmd muni kosta? Hvað mun þetta kosta? Hefur það verið reiknað út? Hvað á að fá marga verði? Hvar eiga þeir að vera?

Ég gúgglaði áðan „Ísland“ og „ljóð“ rétt áðan og fann ljómandi fínt ljóð eftir Jónas Hallgrímsson sem var of langt til þess að skrifa allt niður þannig að ég tók niðurlagið. Og mér finnst niðurlag ljóðsins segja á býsna skemmtilegan hátt hvar þetta gæti endað.

Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,

himinninn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.

En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur

ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.

[…]

Ó, þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir!

Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!

Við erum í stutta stund í þessu mikla tímans fljóti. Við skulum ekki taka ákvarðanir sem hafa þannig áhrif á framtíð landsins að hér verði falt fyrir einhverjar krónur það sem öllum áður var frjálst að njóta. Það á enginn náttúruna, ekki ég, ekki þið, enginn. Við eigum að vernda hana, við eigum að standa vörð um hana og við getum gert það með því að kafa ofan í sameiginlega sjóði okkar sem hafa fitnað mikið af því að margir vilja koma og heimsækja okkur, fá að njóta okkar og náttúrunnar, menningar okkar. Mér finnst að við ættum að hætta að sjá þetta ágæta fólk sem kemur hingað í heimsókn með dollaramerki í augunum. Tökum vel á móti því, nýtum virðisaukann, gerum þetta einfalt. Sjáum það sem fólk sem gefur af sér til okkar og við getum gefið því af okkur. En fyrir alla muni nýtum hina góðu aðferðafræði sem kennd er við KISS, með leyfi forseta, þú verður að fyrirgefa: „Keep it simple, stupid.“

Mér finnst þetta vera flækjustig sem er óþarfi. Ég mun ekki styðja frumvarpið. Ég óska eftir góðri samvinnu alls þings við að bjarga hæstv. ráðherra úr þeirri erfiðu stöðu að vera að reyna að ýta máli í gegn sem greinilegt er að ráðherrann hefur ekki mikinn áhuga á að verði að veruleika.