144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það ríkir samstaða um það í þessari umræðu og hefur í orði kveðnu gert undanfarin nokkur ár að við Íslendingar komumst ekki undan því og þó fyrr hefði verið að fjárfesta umtalsvert í innviðum ferðaþjónustunnar og þá sérstaklega hvað varðar að gæta að náttúrunni og vernda hana á þeim stöðum sem eru orðnir mjög fjölsóttir. Við höfum dregist þar mjög aftur úr og hin mikla og öra fjölgun ferðamanna hefur í raun og veru farið langt fram úr getu okkar til að byggja upp á þessu sviði á undanförnum árum. Þó var á síðasta kjörtímabili hafist handa samtímis því að lagt var í mikið markaðsátak með ferðaþjónustunni, sérstaklega í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli vorið 2010, um að koma upp tekjustofni og/eða leggja fjármuni úr ríkissjóði í þessa fjárfestingu enda öllum ljóst að ef vonir um mikla fjölgun ferðamanna gengju eftir þá þyrfti viðbúnað til þess.

Nú hefur þetta allt saman gengið ævintýralega vel og mörgum sjálfsagt að þakka en aukningin er ævintýraleg ár eftir ár eftir ár og einfalt mál að uppgangur ferðaþjónustunnar hefur skipt gríðarlegu máli fyrir þjóðina í því að rífa sig upp úr þeim efnahagslegu óförum sem við rötuðum í. Þar á hinn mikli vöxtur ferðaþjónustunnar stóran þátt, t.d. að viðskiptajöfnuður er þó ekki lakari en raun ber vitni vegna þess að þjónustujöfnuðurinn hefur snúist mjög til hins betra á síðustu árum og er jákvæður núna á flestum ársfjórðungum sem er öðruvísi en áður var. Í raun og veru er það þjónustujöfnuðurinn sem heldur núna uppi gjaldeyristekjunum og viðskiptajöfnuðinum meira en vöruskiptajöfnuðurinn sé svo góður enda er hann því miður kominn nálægt núlli.

Það var einfaldlega veðjað á ferðaþjónustuna eins og margar aðrar greinar sem lá fyrir að gátu eða höfðu möguleika á örum vexti, snöggum vexti, sættu ekki náttúrulegum takmörkunum, kvótum eða öðru slíku, tæki ekki mörg ár að byggja upp hverja einingu. Það hefur allt gengið eftir og gefist vel. En þó má auðvitað segja að nú sé ferðaþjónustan í vaxandi mæli farin að sæta náttúrulegum takmörkunum. Við getum ekki bara dælt inn ferðamönnum endalaust og stóraukið fjölda þeirra hér á hverju ári án þess að bregðast við. Það endar með stórslysi. Þess vegna var ákveðið í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar að setja umtalsverða peninga í þetta og til að byrja með úr ríkissjóði þangað til einhver tekjustofn væri farinn að gefa nóg af sér til að standa undir slíkum fjárfestingum. Meiningin var að setja 750 milljónir, ef ég man rétt, þrjú ár í röð úr ríkissjóði í Framkvæmdasjóð ferðamála og í þjóðgarða og friðlýst svæði sem lið í þeirri fjárfestingaráætlun.

Ég vil nú segja að í allri þessari umræðu sem hverfist um það hvernig er skást að ná þessum gjöldum og skatti af greininni að það er orðin dálítið athyglisverð hugsun ef það er orðið bannorð að nota einfaldlega almennar skatttekjur í einhverjum mæli, a.m.k. tímabundið, í þetta verkefni. Er algerlega bannað að ræða þann möguleika að a.m.k. að hluta til komi fjárfestingin í innviðum ferðaþjónustunnar úr ríkissjóði, af almennum tekjum á einhverju árabili, einni mestu vaxtargrein íslensks atvinnulífs og stærstu gjaldeyrisaflandi grein þjóðarinnar? Er alveg bannað að horfa til þess að hlúa að vexti greinarinnar og fjárfesta í henni? Ég tel svo ekki vera en er engu að síður stuðningsmaður þess og tel það eðlilegt sjónarmið að leitað sé leiða til þess að fjárfesting af þessu tagi sé borin af greininni sem fær aðgang að auðlindinni, þ.e. náttúru Íslands. Það er hin eðlilega nálgun og jafnvel þannig að við tækjum rentugjald í ríkissjóð sambærilegt við það sem við viljum mörg hver að sjávarútvegurinn greiði fyrir aðgang að sinni auðlind, orkugeirinn fyrir aðgang að orkuauðlindinni o.s.frv.

Því miður hefur núverandi ríkisstjórn verið ákaflega mislagðar hendur í þessu efni. Það finnst mér dapurlegt því að mér er annt um þennan málaflokk og ég hef áhyggjur af ástandinu. En það var með þetta eins og fleira að ríkisstjórnin taldi það alveg sérstakt kappsmál að henda öllu sem fyrri ríkisstjórn hafði gert, þar á meðal fjárfestingaráætluninni og þeim hlutum hennar sem sneru að ferðaþjónustunni, þjóðgörðum og friðlýstum svæðum og uppbyggingu áfangastaða á einstökum stöðum eins og Kirkjubæjarklaustri eða hvar það nú var. Það hefur leitt til þess að það hefur verið hringlandaháttur og ófremdarástand í þessu tvö ár í röð. Tvö sumur eru að hluta til farin í súginn.

Ríkisstjórnin rýkur til haustið 2013 í fjárlögum og sker Framkvæmdasjóð ferðamannastaða alveg niður við trog, setur hann hálftóman inn í fjárlagaárið 2014. Svo rennur það náttúrlega upp fyrir mönnum að þetta er ekki hægt, enginn náttúrupassi er að koma og þá er sullað aukafjárveitingu inn í sjóðinn upp á 400 milljónir eða hver hún var. Hvað gerir ríkisstjórnin núna í haust, herra forseti? Hún endurtekur leikinn, sker Framkvæmdasjóð ferðamannastaða niður við trog og leggur með hann tóman inn á fjárlagaárið 2015. Hvað ætla menn að gera í vor? Ætla menn bara að láta allar framkvæmdir leggjast af í sumar? Þetta er dálítið árstíðabundið og það þarf að hafa fjármuni í uppbyggingu og fjárfestingar sem þarf ekki síst að vinna yfir vor-, sumar- og haustmánuðina, en auðvitað ekki allt. Það má hanna og undirbúa framkvæmdir og gera ýmislegt á öllum árstímum en sumt af útiverkefnunum þarf að vinna fyrrgreinda mánuði.

Ég segi það alveg hiklaust að ég tel að ríkisstjórnin beri verulega ábyrgð með þessari framgöngu á því ófremdarástandi sem hér fór að myndast þegar ýmsir aðilar í ferðaþjónustunni, sem höfðu bundið vonir við fjárveitingar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, gáfust upp á biðinni og ruku af stað í eigin gjaldtöku af því að þeir sáu ekkert fram undan þegar þessi mikli niðurskurður birtist í fjárlögunum. Það er ómögulegt ástand og óþolandi ef rísa eiga gjaldhlið og skúrar hér og þar við náttúruperlur þar sem alls konar einkaaðilar fara að rukka inn. Það væri versta útkoman af öllu mögulegu. Þess vegna þarf að finna lausn á þessu máli og það eru margar leiðir færar og eiginlega allar betri en sú sem hér er lögð til.

Þessi reisupassahugmynd gengur alls ekki upp af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi er ég hugmyndafræðilega andvígur þessari verðmiðahugsun gagnvart náttúru landsins. Í öðru lagi gengur þetta ekki upp gagnvart almannaréttinum. Það er einfaldlega þannig. Það er algerlega glórulaust að ætla að gera einstaklinga að andlagi þessarar gjaldheimtu, þess vegna Íslendinga, borna og barnfædda ríkisborgara hér, þegar þeir ferðast um landið sitt. Það gengur ekki upp. Það samrýmist ekki almannaréttinum og yrði örugglega látið á það reyna, að sjálfsögðu. Menn hafa talið að það væri hneykslanlegur málflutningur að segjast ekki ætla að borga þetta gjald. Ég mundi að sjálfsögðu láta á það reyna ef einhver ætlaði að fara að rukka mig um náttúrupassa ef ég væri til dæmis að labba skáhallt yfir Þingvelli. Segjum að ég tæki mig bara upp og labbaði gamla Konungsveginn yfir Mosfellsheiði, niður Almannagjá, upp á Vellina og inn að Skjaldbreið — ætlar einhver að stoppa mig og rukka mig? Í hvaða umboði? Ég vísa bara í aldagamlan rétt minn sem Íslendings til að fara um landið mitt, á ekki viðskipti við nokkurn mann og er að ganga fornar götur eins og stendur í Jónsbók að vegir skuli liggja svo sem að fornu hafi legið. Það á enginn neitt með það að abbast neitt upp á mig í slíkum erindagjörðum.

Þá kem ég að öðru sem er náttúrlega þetta frumvarp. Með fullri virðingu, herra forseti, þetta er svo yfirgengilega ónýt smíð. Ég vil bara nota íslensku um það. Sjáið 6. gr., hv. þingmenn, eftirlitsgreinina. Hún er þrjár og hálf lína. Hvað segir hún?

„Á þeim ferðamannastöðum sem eiga aðild að náttúrupassa, samanber 4. gr., annast Ferðamálastofa eftirlit með því að einstaklingur sé eigandi að gildum náttúrupassa sem greitt hefur verið fyrir og gefinn er út á viðkomandi. Nánar skal kveða á um eftirlit Ferðamálastofu í reglugerð sem ráðherra setur.“

Á kannski að færa Ferðamálastofu einhvers konar lögregluvald í reglugerð, herra forseti? Það væri nýmæli. Hvað haldið þið að gerist ef einhver ágætur starfsmaður Ferðamálastofu kæmi að mér á Þingvöllum og ætlaði að stoppa ferð mína um Þingvelli af því að ég væri ekki með náttúrupassa á grundvelli þessara lagaákvæða? Hvað segi ég við þann góða mann? Ég segi: Hver ert þú, góði minn? Hann segist vera frá Ferðamálastofu, náttúruvörður. Ég segi: Það er ágætt hjá þér. Heyrðu, ég er hérna á ferð um Vellina og vertu sæll. Hvað ætlar hann að gera? Ætlar hann að handtaka mig? Hefur hann lögregluvald? Nei. Það stendur ekki einu sinni í lagagreininni að einhver starfsmaður eigi að hafa einhverja skilgreinda stöðu samkvæmt lögum. Þetta gengur ekki upp.

Menn hafa nefnt stöðumælaverði í þessu samhengi. Menn hafa nefnt vegaeftirlit. Ég skal fara yfir það. Lesi menn lagaákvæðin um það. Það er nefnilega þannig að stöðumælaverðir í þeim sveitarfélögum sem hafa sjálf tekið að sér rekstur bílastæða hafa stöðu samkvæmt lögum. Þar segir að þeir megi sekta þá sem leggja ólöglega og svo geta menn leitað réttar síns ef þeir una ekki þeirri niðurstöðu. Lögreglueftirlitsþátturinn er þar með framseldur með skýru ákvæði í lögum hvað bílastæðin varðar til stöðumælavarða. Það er ákvæði um það í lögunum og þeir eru nefndir þar.

Eigum við að taka vegaeftirlitsmennina hjá Vegagerðinni? Hvernig er með þá? Fara þeir með lögregluvald? Nei, en þeir fara með það vald í lögunum að þeir mega stöðva stórar bifreiðar, þeir mega skoða búnað þeirra og farm og þeir mega vigta þær og athuga hvort þar er allt í lagi. Bílstjórum ber að stöðva ef vegaeftirlitsmaður gefur þeim merki um það. Hvað gerist ef vegaeftirlitsmaðurinn sér eitthvað athugavert? Ef hann telur að brot hafi átt sér stað, handtekur hann þá bílstjórann? Nei, hann hringir í lögregluna, þar eru mörkin dregin. Vegaeftirlitsmaðurinn hefur þann eina rétt að tryggja að bílstjórinn bíði þangað til lögreglan er komin.

Það er ekki hægt að framselja einhvers konar ígildi lögregluvalds út og suður. Svona handónýt lagagrein sem gefur eftirlitsmönnum Ferðamálastofu enga stöðu að lögum er ónýt. Það sjá það allir menn. Viðkomandi einstaklingur sem væri svo óheppinn að fá þarna vinnu og reyndi að sinna þessu eftirliti gæti ekkert annað gert en að segja: Jæja þá, ef þú vilt ekki sýna mér náttúrupassann þinn, þá það. Ég hef ekkert leyfi til að hefta þína för um landið. Það er bara þannig.

Hvernig dettur mönnum í hug að setja þetta svona fram fyrir Alþingi? Síðan er þetta ónýtt líka vegna þess að frumvarpið nær ekkert utan um málið. Jafnvel þó að menn ætli að láta sig hafa það að koma á þessum reisupassa þá geta einkaaðilar sem kjósa að standa utan ferðapassans rukkað áfram, alla vega ef yfirvöld hafa þá afstöðu að þeir megi það. Því miður hefur núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra þá afstöðu að það sé bara allt í lagi að einkaaðilar rukki þó að þeir hafi í raun og veru ekkert leyfi til þess samkvæmt náttúruverndarlögum og mörgum fleiri lögum sem tryggja almannarétt um landið. Einnig að því leyti er málið ónýtt því að ef við erum að einhverju af þessu tagi á annað borð er lágmark að menn nái utan um málið og komi í veg fyrir að það rísi upp skúrar hér og þar hjá öllum þeim sem sjá sér leik á borði og taka ekki þátt í náttúrupassanum til að þurfa ekki að bíða eftir því að fá stundum úthlutað þaðan og stundum ekki heldur fara bara beint í að rukka sjálfir. Ef ekki á að taka á því þá er nú lítið unnið við þetta.

Síðan segir hæstv. ráðherra, komin á mikið undanhald í málinu sem ég fagna auðvitað, að þetta sé allt í lagi vegna þess að það eigi alls ekki allir staðir að vera þarna inni heldur eigi bara að vera 10–12 skilgreindir staðir. En hvernig er frumvarpið? Þar segir í 4. gr.:

„Allir ferðamannastaðir í eigu eða umsjón opinberra aðila eiga sjálfkrafa aðild að náttúrupassa.“ — Svo er útskýrt hvað það sé.

Síðan segir í 4. mgr.:

„Ferðamálastofa skal á hverjum tíma halda úti uppfærðum og aðgengilegum lista yfir þá ferðamannastaði á Íslandi sem eiga aðild að náttúrupassa í samræmi við 1. og 2. mgr.“

Það eru allir ferðamannastaðir í eigu opinberra aðila. Nú kemur ráðherra og segir: Nei, nei, það verður gefinn út listi og það þarf ekki að hafa passann nema á 10–12 vel völdum stöðum. Hvar er heimildin fyrir því í þessu frumvarpi að gera það? Hún er engin. Það er enginn greinarmunur gerður á því. Það er skýrt tekið fram að á þeim ferðamannastöðum, samanber 6. gr., sem eiga aðild að náttúrupassa, samanber 4. gr., annast Ferðamálastofa eftirlit með því að einstaklingur sé eigandi að gildum náttúrupassa o.s.frv. Það verður að taka inn lagaheimild til þess handa ráðherra að fækka þeim svæðum niður með reglugerð þar sem þarf að sýna passann því að frumvarpið er ekki með neitt svigrúm til þess. Ráðherrann hörfaði þegar farið var að benda á að það yrði viðurhlutamikið ef allt land í opinberri eigu ríkis og sveitarfélaga væri þarna undir. Hver ætlaði að hafa eftirlit með því? Einn maður á skrifstofu í Reykjavík? Ísland er 104 þúsund ferkílómetrar, það yrði nú handleggur. Einnig að þessu leyti nær frumvarpið ekki máli.

Síðan hefði ég viljað spyrja ef hér hefði verið umhverfis- og auðlindaráðherra, er umhverfis- og auðlindaráðherra sáttur við það að þjóðgarðar og friðlýst svæði hverfi út úr þessum tekjustofni og hafi enga tryggingu fyrir því að eitthvað af þessu fjármagni renni þangað? Ákvæðin um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða eru þannig í dag að það er tryggt að 2/5 af tekjunum renna beint til þjóðgarða og friðlýstra svæða undir stjórn umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, en þetta ákvæði á að fella brott með breytingum á öðrum lögum, samanber það að 2. töluliður 3. gr. á að orðast svo: „Framlag ríkissjóðs sem nemur tekjum ríkissjóðs vegna innheimtu gjalds með útgáfu náttúrupassa.“ Tekjur sjóðsins (Forseti hringir.) en engin eyrnamörkun til þjóðgarðanna og friðlýstu svæðanna. Ég og við hér í salnum, (Forseti hringir.) tvö a.m.k., þekkjum alveg fundina sem það tók að ná sæmilegu samkomulagi milli (Forseti hringir.) ferðageirans annars vegar og þjóðgarðanna og umhverfishliðarinnar hins vegar (Forseti hringir.) þannig að ég er nú hissa ef allir ætla að kyngja þessu þegjandi og hljóðalaust.