144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hennar því að ekki var beinlínis borin fram nein spurning. Nei, þetta er ekki gripið úr loftinu, það er alveg rétt. En hins vegar hefur komið fram að þetta er það sem ferðaþjónustunni, og þeim sem þetta snýr að, hugnast síst. Búið er að fara svolítið í gegnum þessa umræðu. Fyrst voru aðilar hrifnir af henni en svo kom það skýrt fram þegar ráðherra ákvað að fara með hana fram á síðari stigum að þeir voru afar mótfallnir henni. Þeir vildu gistináttagjaldið eða komugjöld. Um það vill ferðaþjónustan ræða sem þetta snýr að.

Það að gera úlfalda úr mýflugu held ég að sé bara ekki rétt. Að líkja þessu við að ganga um borð í lestir finnst mér heldur ekki hægt að gera. Landið okkar er ekki lítið. Það er nefnilega stórt og á köflum erfitt yfirferðar. Það er til lítils að setja á eitthvert eftirlit og einhver viðurlög, eins og stjórnvaldssekt upp á 15 þús. kr., ef slíkt er bara sett til að setja það, ef enginn veit hvernig á að bregðast við því eða enginn veit hvernig á að framfylgja þessu eftirliti. Ef það á að hafa eftirlit með því að fólk borgi — hér er talað um að fólk þurfi að kaupa sér passa og reiknað er með að 70% af ferðamönnum sem koma erlendis frá geri það — hvernig sér hv. þingmaður, sem telur þetta ekkert mál, það fara fram að ná að innheimta gjaldið? Á það að gerast á flugvellinum? Á það að gerast (Gripið fram í.) ja, hvar? Hvernig á þetta að fara fram? Hvernig eigum við að vera viss um að þetta nái fram að ganga? Og það væri áhugavert að vita hvernig þingmaðurinn sér eftirlitið fyrir sér.