144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:45]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat það, okkur greinir bara á. Ég tel að þetta sé ekki einfalt. Og það að Samtök ferðaþjónustunnar, Landvernd og fleiri sem að þessu máli koma ályktuðu um að ekki hefðu fengist neinar aðrar hugmyndir ræddar, hvað segir það okkur? Það segir að það hafi bara átt að fara fram með þessa leið af því að ráðherrann vildi það, þrátt fyrir að hagsmunaaðilar teldu aðrar leiðir betri. Það kom fram í dag að innheimta á gistináttaskatti væri flókin. Ég mótmæli því, ég starfa í þeim geira þannig að ég bara mótmæli því að það sé eitthvað erfitt. Þau lög og reglur er alveg hægt að lagfæra og ég tel að það þurfi að gera, klárlega, af því að ég held að við getum náð inn auknum fjármunum þar á mismunandi tegundir gistinga. En það sem ég gagnrýni í þessu — hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór mjög vel yfir lögin, að það vantaði heimildir og ýmislegt fleira til að þetta fengist framkvæmt hvað varðar til dæmis náttúruverðina og annað því um líkt. Það eru allt of mörg álitamál og eins og ég segi, þau mál er varða þetta eftirlit er ekki gott ímyndarlega séð, að menn kaupi sér náttúrupassa en er sagt að ef hann er ekki keyptur — við hljótum að þurfa að upplýsa um það — þá eigi þeir á hættu að fá sekt. Hv. þingmaður sagði að maður gæti kannski stungið sér inn í lest og valið hvort maður borgaði eða borgaði ekki og tæki sénsinn, það er auðvitað hægt. Það er ekki spurning. En það getur enginn sagt hvað gerist þá af því að það liggur ekki fyrir í frumvarpinu. Hvað gerist ef ég kaupi engan passa og er ekki með kreditkort til að borga sektina?