144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er náttúrlega þannig með þessa skattlagningu, hver svo sem hún er og hvar svo sem hún er, að við þurfum að gæta hófs. Þess vegna spurði ég hér í dag hvort hægt væri að fara blandaða leið.

Fólk getur valið hvers konar gistingu það kaupir; hún þarf ekki að vera sú dýrasta, hún getur verið ódýrari og þá þarf fólk að borga lægri gistináttaskatt. Fólk getur keypt mismunandi dýrt flug en það er alltaf sami skatturinn þar undir ef hann er lagður á flugið. Það má eflaust finna flöt á því að gera þetta með mismunandi hætti.

Ég er sammála þingmanninum í því að sums staðar er mjög mikil þörf á að lagfæra öryggisatriði. En það er ekki það sem fólk er að koma til að sjá, þ.e. að allt sé svo manngert alls staðar á öllum ferðamannastöðum. Og hvað eru ferðamannastaðir? Þrátt fyrir að ráðherra skilgreini 10 eða 12 staði þá er opið fyrir einkaaðila úti um allar koppagrundir. Það má ekki gleyma því að þetta er ekki bara það sem ráðherrann ákveður með reglugerð, 10 til 12 staðir. Og er það um aldur og ævi eða hvernig á að horfa á það? Geta fleiri staðir komið inn með tímanum? Ef ferðamönnum fækkar, ættum við að fjölga stöðunum sem við rukkum á? Gerum við ráð fyrir því? Hvað ætlum við að gera? Eða gerum við bara ráð fyrir því að þá verðum við komin með svo fína innviði að við þurfum ekkert á því að halda og hvað þá?

Ég er ekki sammála því að þetta sé besta leiðin. Ég held að við eigum að reyna að fara aðra leið. Mér finnst ráðherrann ekki hafa skýrt það út ef sekt er ekki greidd eða hverjir hafa heimild — hvað gerir náttúruvörðurinn sem sektar mig? Hann hefur ekki handtökuheimild. Það þýðir ekkert að setja lög og reglugerðir (Forseti hringir.) ef því er ekki framfylgt, ef það er bara upp á punt.