144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:54]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja þar sem hv. þingmaður endaði. Ekki mundi ég vilja girða Ólafsfjarðarmúla af, það get ég sagt hér og nú. Það er ekki það sem við erum að sækjast eftir þegar við förum upp og horfum á sólsetrið. Ég hef haft hemil á mínum börnum, ég tel að aðrir geti gert það. Við höfum verið þarna uppi án þess að hafa borið skaða af. Ég tók þetta sem dæmi vegna þess að ég held að við þurfum að gjalda varhuga við þessu. Það er ýmislegt sem getur farið úrskeiðis í þessu. Ég var ekki bara að tala um litla staði hjá einkaaðilum, ásetnir ferðamannastaðir eru líka í eigu einkaaðila, við höfum farið yfir það. Þeir geta líka valið, af því að þeir geta komið betur út, hvað þeir rukka fyrir þetta.

Það er eitt að rukka fyrir þjónustu sem er veitt eins og hér hefur verið rætt, salerni, bílastæði eða eitthvað slíkt, menn geta valið að rukka fyrir það. (PHB: Það kostar mikið.) En það að rukka fyrir upplifun, eins og hér er verið að gera, er ekki að mínu skapi.

Hæstv. ráðherra greip hér fram í og sagði mér að lesa frumvarpið varðandi eftirlitsaðilana en þar kemur ekkert fram um það sem ég er að spyrja um. Ef ég neita að gefa upp kennitöluna og ég segi ekki hvað ég heiti og ég er erlendur ferðamaður, þá næst ekkert inn af mér, það er bara þannig. Ég get verið Íslendingur líka og sagt bara: Nei, ég tala bara ekkert við þig, sorrí. Og hvernig á þá að rukka? Á að elta mann uppi? Ef stór hluti þjóðarinnar mundi ákveða að gera þetta. (Gripið fram í.) Ég veit það, ráðherra verður að svara því. Það er ekkert sem segir það af því að ekki er girt fyrir þetta með neinum öðrum hætti.

Mér finnst við vera að setja hér viðurlög sem ganga ekki upp og eru meira til að sýnast heldur en hitt. Mér fyndist líka að ráðherrann ætti að leggja meiri áherslu á landverði og starf þeirra frekar en að vera að búa til nýja stétt náttúruvarða.