144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:12]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ef ég skil ræðu hans rétt þá talar hann um vöntun á fjármagni inn í uppbyggingu ferðamannastaða síðustu árin. Þá langar mig að minna þingmanninn á að einmitt síðustu tvö árin hefur verið mjög mikið fjársvelti og vöntun í uppbyggingu ferðamannastaða. (Gripið fram í: Aldrei verið veitt eins …) Það hefur ekki verið tekin sú ákvörðun að veita áframhaldandi fjármagn í uppbyggingu á ferðamannastöðum. Ég vil líka minna á að það eru engir tekjustofnar fyrir þjóðgarðana í þessu frumvarpi, þeir eru felldir brott.

Svo má minna á fjárfestingaráætlun fyrrverandi ríkisstjórnarinnar sem þessi ríkisstjórn ákvað að hafa ekkert með að gera áfram og afsalaði sér líka tekjum til þess að eiga fjármagn til þess að halda áfram með einhvers konar áætlun á borð við hana. Þar voru 750 milljónir sem ákveðið var 2012 að fara með í uppbyggingu og verndun á ferðamannastöðum. Það hefur því verið mikið um að menn hafi afsalað sér tekjustofnum einmitt í uppbyggingu ferðamannastaða. Það hefur átt sér stað síðustu tvö árin. Ég sakna þess líka úr frumvarpinu að enginn tekjustofn sé merktur í landvörslu. En ég deili með hv. þingmanni áhyggjum af svæðum á borð við Landmannalaugar og Laugaveginn, þau hafa verið undir miklum ágangi síðustu árin.

Ég vil spyrja hv. þingmann um skoðun hans á gistináttagjaldinu vegna þess að mér finnst ég þurfa aðeins skýrari útlistun hans á því.