144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki skilið orð hv. þingmanns öðruvísi en svo að þá finnist honum almannarétturinn vera úr sér genginn, vera barn síns tíma. Ég gat ekki skilið þetta öðruvísi en svo að nú værum við orðin það mörg og þess vegna þyrftum við að fara þá leið að borga okkur inn í eigið land með náttúrupassa, að velja þá leið. Um það erum við hv. þingmaður ósammála. Það er ágætt að fá það fram því að þetta er í mínum huga ákveðið grundvallaratriði í allri þessari umræðu. Það er eitt. Svo þarf að fá þetta allt saman til að virka til þess að fá peningana inn. Það er nokkuð sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spurði um áðan.

Tími minn er búinn og þess vegna vil ég bara spyrja hv. þingmann: Hefur hann engar áhyggjur (Forseti hringir.) af því sem segir í umsögn fjármálaráðuneytisins um að það eigi bara að vera einn aðili að sinna þessu eftirliti? Trúir hv. þingmaður í alvörunni (Forseti hringir.) að það muni virka?