144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Maður veltir fyrir sér hversu mikið umstang og utanumhald sé verið að setja í gang með frumvarpi ráðherrans fyrir 1 eða 1,5 milljarða á ári. Hér er verið að leggja til algjörlega nýja skattlagningu, nýja tekjuöflunarleið, nýja stétt ríkisstarfsmanna, nýtt kerfi eftirlits o.s.frv. fyrir tiltölulega litla upphæð í stóra samhenginu. Eftir því sem ég best veit sér ferðaþjónustan ríkissjóði fyrir um 17 milljörðum kr. í tekjur á ári. Þarna erum við að tala um mjög lítið og óverulegt brot af því. Ég tek því undir það sem hv. þingmaður segir, að leiðin sé hin samsetta leið þeirra kerfa sem við höfum fyrir frekar en að ræsa nýtt kerfi og gefa bákninu að borða, eins og einhver sjálfstæðismaður mundi væntanlega segja á góðum degi.

Mig langar að spyrja um eitt því að það hefur ekki komið beinlínis upp í umræðunni sem hugmynd að tekjuöflun til viðbótar við það sem áður hefur verið rætt. Það er skattfrí verslun ferðamanna, það sem stundum er kallað „Tax Free“-verslun þar sem þeir ferðamenn sem versla á Íslandi fá endurgreiddan virðisaukaskattinn við brottför. Sumar þjóðir hafa fellt þessa endurgreiðslu niður eins og Kanadamenn, mér vitanlega. Þarna eru samkvæmt mínum upplýsingum 1,6 milljarðar kr. á ári sem eru alveg með ólíkindum nálægt þeirri tölu sem við erum akkúrat að tala um sem tekjuþörf fyrir uppbyggingu ferðamannastaða. Má ég spyrja hv. þingmann hvernig leggst í hana að skoða þá tekjuöflunarleið sem væri bæði aðgengileg og einföld.