144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:54]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þar sem ég tel einsýnt að umræðunni ljúki ekki á þessum þingfundi langar mig að bregðast aðeins við nokkrum af þeim atriðum sem hér hafa verið rædd.

Ég vil í upphafi þakka fyrir það sem heilt yfir hefur verið málefnaleg umræða. Ég vil þakka síðasta hv. ræðumanni sérstaklega fyrir mjög málefnalega og gagnlega yfirferð. Ég verð að segja að fátt hefur komið á óvart í umræðunni í dag. Hún hefur farið í ýmsar áttir og rætt hefur verið um, eins og við var að búast, kosti og galla við þessa leið og aðrar þær leiðir sem í umræðunni hafa verið. Það er nákvæmlega það sem gert hefur verið á þeim tíma sem ég hef unnið að frumvarpinu. Mikil vinna hafði líka átt sér stað áður en við hófum okkar vinnu. Ég lýsti því í morgun að það voru margar skýrslur, margar úttektir, mikið af upplýsingum og alls konar fræðimenn, erlendir og innlendir, voru búnir að taka þessa umræðu. Það sem hefur vakað fyrir mér er að koma með tillögu sem ég hef sannfæringu fyrir og leggja hana fyrir þingið. Ég er vongóð um það eftir þessa 1. umr., það sem af er henni, að við getum tekið höndum saman og unnið úr tillögunni betra mál eins og þingleg meðferð á að hafa í för með sér.

Ég vil ræða nokkur atriði og kannski fyrst í framhaldi af því sem hv. þingmaður var að ræða um rétt áðan, en hún hafði áhyggjur af því að verið væri að setja upp nýtt kerfi, nýtt bákn, að þetta yrði dýrt í framkvæmd. Þá vil ég einmitt benda á að það er ekki verið að setja upp nýtt kerfi. Það á að nota Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem er til, hefur reynst vel og hefur sannað gildi sitt. Það verður sama framkvæmd, en aukið umfang vegna þess að við munum auka fjármuni, en umfangið verður þó ekki þannig að það fari yfir ákveðin mörk, við munum leggja okkur fram við það. Þess vegna höfum við sett inn í frumvarpið að umsýslan með þessu öllu saman fari ekki yfir 3,5% af innkomu gjaldsins. Það er ekki síst til að aga okkur, en það er samt byggt á raunhæfum áætlunum og útreikningum sem liggja þar að baki.

Gistináttagjaldið hefur verið nefnt hér oft og ítrekað og talað um einfaldleika í því samhengi, að við séum komin með kerfi sem hafi sannað gildi sitt og sé einfalt í framkvæmd. Ég er því aldeilis ósammála. Það er hlutfallslega mjög dýrt í framkvæmd. Það var mikill stofnkostnaður af því á sínum tíma. Ef maður les umsagnir ríkisskattstjóra frá þeim tíma sem frumvarp um það gjald var lagt fram þá kemur glögglega fram að menn höfðu áhyggjur af því og upplýsingar innan úr skattkerfinu sem ég hef aflað mér staðfesta að þetta er hlutfallslega mjög dýrt kerfi. Þrátt fyrir að gistinóttum hafi fjölgað og ferðamönnum hafi fjölgað, þá er hlutfallið að lækka af því sem innheimtist í gegnum gistináttagjaldið. Það segir okkur að gjaldið innheimtist ekki af einhverjum ástæðum, hvort verið sé að leigja út herbergi í svartri atvinnustarfsemi, ég ætla ekki að væna heila atvinnugrein um slíkt, en það eru einhverjar ástæður fyrir því. Þá segja menn: Fínt, við skulum þá hækka gjaldið, hafa það jafnvel mishátt eftir hversu dýr gistingin er. Þá leyfi ég mér að halda því fram að það sé ekki til þess að einfalda hlutina. Það að hækka gjaldið verður ekki til þess að draga fleiri inn í það kerfi. Það er það sem ég hef áhyggjur af varðandi gistináttagjaldið. Það mun ekki skila nægum tekjum, eins og við höfum séð. Ef menn telja, eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir sagði áðan, betra að fara samsetta leið, þá þyrfti að gera það, það þyrfti að afla frekari tekna.

Ég hef hallast að því að reyna að gera þetta eins einfalt úr garði og hægt er og við lögðum upp með það. Ég vil gera athugasemd við það meinta flækjustig sem menn hafa gert hér að umtalsefni. Ég er nú svo heppin að fá að vera nýsköpunarráðherra líka ásamt því að bera ábyrgð á ferðamálunum. Það er nánast á hverjum einasta degi sem menn koma til mín með alls konar hugmyndir og útfærslur eftir umræðuna um náttúrupassann og skilja hreint ekki í því af hverju þetta ætti að vera svona flókið. Við leigjum okkur bílaleigubíla, kaupum okkur hótelgistingu, bíómiða, leikhúsmiða og tónleikamiða á nafni í gegnum netið, við fáum þetta sent í símann hjá okkur. Þetta er ekkert flókið, það þarf bara að ganga í verkið og klára þetta. Ég hef engar áhyggjur af útfærslunni. Ég hef sagt það áður og segi það enn, það er ekki flókið að útfæra þetta, en við þurfum að vanda okkur. Við þurfum að gefa okkur tíma. Sú útfærsla er eðlilega ekki hafin þar sem við erum ekki búin að klára lagasetninguna, en það er viss undirbúningur hafinn.

Ég hef rætt við ríkisskattstjóra um að gera þetta þannig úr garði að Íslendingar geti hakað við á skattskýrslunni sinni, þurfi ekki að bera passann í einhverri mynd heldur sé nóg að segja kennitölu og sýna skilríki. Passinn er á nafni. Það sem kannski þvælist fyrir er þetta hugtak „passi“, ég hef áttað mig á því. Þegar við vorum að vinna með málið í lokadrögum vorum við að velta fyrir okkur hvort við ættum að kalla þetta eitthvað annað. Þá göntuðumst við með það að fólk mundi segja: Bíddu, hvað er þetta? Og svarið yrði: Æ, þetta er svona eins og náttúrupassi. Þannig að við ákváðum að halda okkur við þetta nafn en ég auglýsi hér með eftir öllum góðum tillögum að betra heiti sem nær að ramma þetta betur inn.

Útlendingarnir. Við munum reyna að ná þeim eins mikið og við getum í gegnum netið. Við höfum hafið samtöl við flugfélögin, vegna þess að mikið af bókunum hjá þeim fer fram í gegnum netið, hvort hægt sé að fara í samstarf við þau um að í lok bókunar komi gluggi þar sem segi: Á Íslandi þarf náttúrupassa. Smelltu hér ef þú vilt kaupa hann fyrir fram. Þá fer viðkomandi inn á heimasíðu þar sem menn geta orðið sér út um náttúrupassa. Alls konar svona hluti erum við með í undirbúningi og munum setja strax af stað, verði frumvarpið samþykkt.

Meta árangur, fara af stað, klára, rýna svo, athuga hvernig þetta gengur. Að sjálfsögðu. Það eru beinlínis endurskoðunarákvæði í frumvarpinu. Ég fagnaði því að heyra þingmanninn segja þetta vegna þess að ég veit að við erum svo nálægt því að klára að komast að niðurstöðu að sá tímapunktur er kominn að hrökkva eða stökkva. Þetta er ekki fullkomið kerfi, ég er sú fyrsta til að viðurkenna það, en það er ekkert til sem heitir fullkomið kerfi. Það er búið að hugsa mikið um þetta frumvarp og ég mótmæli því sem hefur verið haldið fram af nokkrum þingmönnum í ræðum í dag að það sé vanhugsað og handahófskennt og beri vott um handarbakavinnubrögð. Við erum búin að leggja gríðarlega mikla vinnu í þetta. Við erum búin að leggja gríðarlega miklu vinnu að fara í gegnum kosti og galla við allar leiðir. En á endanum þarf að taka ákvörðun um hvaða leið við ætlum að fara. Þetta er sú leið sem við leggjum til og leggjum í dóm þingsins.

Svo hafa verið rædd alls konar gjöld, ég er búin að ræða gistináttagjaldið, það er mikið búið að ræða um komugjöld, það kemur heldur ekki á óvart. Það er alls staðar rætt. Menn vilja eitthvað einfalt. Allir vilja það. En þegar maður skoðar gallana þá finnst mér það vera stórgalli að mestu tekjurnar komi frá Íslendingum. Mér finnst það vera stórgalli að gjald leggist á innanlandsflugið. Hjá því er ekki komist. Það er mjög ódýrt að segja: Fínt, þá leggjum við bara af einhverja aðra skatta á innanlandsflugið í leiðinni. Maður gerir það ekki í einu vetfangi.

Síðan er rætt um að hækka virðisaukaskattinn. Það er kannski bara skattapólitísk ákvörðun. Við börðumst gegn því að gistingin færi fyrirvaralaust í hærra skattþrep á síðasta kjörtímabili og vorum líka á móti þeirri málamiðlun sem talað hefur verið um hér að hafi náðst sátt um. Það var engin sátt, það var niðurstaða meiri hluta þingsins á þeim tíma, það var engin sátt um að búa til aukaþrep fyrir eina atvinnugrein. Það var sá prinsipppunktur sem við andmæltum. Ég hef sagt og við sögðum við ferðaþjónustuna: Þar með er ekki sagt að við munum ekki breyta skattkerfinu í kringum ferðaþjónustuna með einhverjum hætti eða einhvern tímann, að sjálfsögðu ekki. Með virðisaukaskattsbreytingunum núna fór lægra þrep virðisaukaskattsins eins og allir vita úr 7 í 11% og þar með gistingin. Skattur á hana hækkaði og við erum líka að breikka stofnana með því að taka inn hluti sem hafa verið utan kerfisins.

Þá er það alltaf þessi spurning: Eigum við bara að taka þetta í gegnum skattkerfið? Það er vissulega sjónarmið. Ég vona að nefndin fari vel og rækilega yfir það vegna þess að það væri náttúrlega einfaldast fyrir mig sem stend hér að segja bara: Fínt, nú semjum við við fjármálaráðherra og fáum það í gegnum þingið að lagður verði inn milljarður eða meira í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á næstu árum og þá þurfum við ekkert að vera með þetta vesen. En það er kannski tvennt sem kemur í veg fyrir það. Það er sá langtíma fyrirsjáanleiki sem við þurfum að hafa í þessum geira, að menn viti og geti vitað að fjármögnunin sé traust þannig að þeir geti hafið undirbúning. Það vantar ekki alltaf bara pening. Stundum á eftir að deiliskipuleggja, hanna, teikna og undirbúa. Þetta tekur langan tíma af því það hefur verið óstöðugleiki í þessari fjármögnun, þó svo að ég verði að leiðrétta það sem hefur ítrekað komið hér fram hjá hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur um að hér hafi verið niðurskurður á síðasta ári. Þvert á móti hefur aldrei verið lögð hærri fjárhæð í framkvæmdasjóðinn en einmitt árið 2014. Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir hefur gagnrýnt það að við tókum það á fjáraukalög, það voru ákveðnar ástæður fyrir því, en það breytir ekki því að það eru líka aðrar ástæður, það er langtímahugsunin.

Síðan er það hitt að ef við ætlum að taka féð út úr skattkerfinu, jafnvel þótt við getum sagt að tekjurnar komi frá einni atvinnugrein í svo og svo miklum mæli, þá á það við um velflestar atvinnugreinar. Þær skila inn í hítina, inn í sameiginlega sjóði okkar, en fá ekkert endilega í sama hlutfalli til baka. Þetta eru sameiginlegir sjóðir. Þetta eru skatttekjur.

Á endanum er það síðan baráttan um fjármagnið. Ef við þurfum að gera upp á milli gjörgæslu eða göngustíga á lokametrum fjárlagagerðarinnar þá óttast ég að göngustígarnir yrðu undir. Það er þess vegna sem ég legg til þessa ákveðnu fjármögnunarleið til að setja traustari grunn undir þann stöðugleika sem þarf til lengri tíma.

Síðan hafa verið nefnd hér atriði eins og að rukka fyrir bílastæði. Það er sjálfsagt að skoða það. Frumvarpið kemur ekki í veg fyrir það. Það er þvert á móti tekið fram að aðilum sé frjálst, hvort sem það eru opinberir aðilar eða einkaaðilar sem gerast aðilar að náttúrupassanum, að rukka fyrir þjónustu, að byggja upp, hvort sem það eru veitingastaðir eða önnur aðstaða eða afþreying fyrir ferðamenn á sínum landsvæðum. Það ætlar enginn að koma í veg fyrir það með þessu heldur er hér átt við uppbyggingu innviða sem er svo nauðsynleg og er svo kostnaðarsöm.

Síðan hafa ýmis framkvæmdaatriði verið rædd. Hvernig verður eftirlitinu áttað? Ég hef sagt að almennt séð verði það ekki umfangsmikið og íþyngjandi. Auðvitað eigum við eftir að útfæra í nákvæmum atriðum hvernig því verður háttað, hvort við tökum það saman með upplýsingaþjónustunni, fáum landverðina með okkur í verkefnið. Mér finnst sjálfsagt að skoða það. Önnur framkvæmdaatriði hafa líka verið rædd, eins og hvernig menn muni nálgast passann. Því hef ég svarað hér, í gegnum netið. Síðan eru sjálfsalar fyrirhugaðir á þeim stöðum sem krafa verður gerð um passa fyrir þá sem ekki eru með passa en eru komnir á staðinn.

Hv. þingmaður Sigríður Á. Andersen sagði að henni þætti eðlilegra ef við hefðum sett staðina sem þetta á að gilda um inn í frumvarpið. Ég fel nefndinni að skoða það, en ein ástæða fyrir því að það var ekki gert, ég get alveg sagt það hér, var sú að þá hefði umræðan í dag kannski snúist um það af hverju þessi staður væri nefndur en ekki hinn. Nefndin skoðar það að sjálfsögðu, ef hún kýs að hafa tryggari lagastoð undir því er það sjálfsagt að gera það.

Síðan er spurt hvort við getum notað kerfið til stýringar, haft dýrara á sumrin, ódýrara á veturna. Algjörlega. Þegar við réðumst í þetta, að setja á kerfi sem felur í sér ákveðna framandi hugsun, var mitt mat að betra væri að hafa þetta eins einfalt í upphafi og hægt væri, 1.500 kr., sama verð fyrir alla, gildir á öllum þessum stöðum. Síðan höfum við ótal tækifæri til þess að fara í alls konar endurbætur. Ég vona svo sannarlega að við náum þangað, en mest um vert er að við klárum þetta fyrir vorið.