144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Ég held einmitt að það sé mjög mikilvægt að reyna að fá sem flesta með. Það getur haft úrslitaáhrif á það hvort þetta tekst eða ekki að sérstaklega stóru aðilarnir séu með í þessu og það myndist þannig stemning að þeir vilji það. Ég hef í sjálfu sér engar stórkostlegar áhyggjur af eftirlitinu. Oftast borgar maður bara eitthvert gjald og bíður ekkert endilega eftir því að einhver komi og tékki á því hvort maður hafi greitt gjaldið. Það er meira bara af samviskusemi sem fólk gerir það. Þetta er svo sem hóflegt og það er gott.

Fyrst ég hef hæstv. ráðherra í salnum langar mig að spyrja um framtíðina og það hvort hún sjái fyrir sér að ferðaþjónustan fari upp í efra þrepið eða hvort við séum þarna með atvinnugrein sem eigi að vera í neðra þrepinu af því að hún er eitthvað svo viðkvæm, eða hvað er málið með það? Ég veit ekki hverjar hugmyndir ríkisstjórnarinnar eru og hvað verður í framtíðinni með virðisaukaskattsþrepið, hvort við séum að stefna að einu sem sé þá eitthvað lægra en efra þrepið. Það er ansi hátt, það skal viðurkennt. En erum við að tala um að við viljum halda því áfram með þær undanþágur sem enn eru í ferðaþjónustunni? Hvað segir hæstv. ráðherra um það?

Eins varðandi það sem við komum aðeins inn á áðan, þó að það snúi kannski ekki beint að þessu máli eða hæstv. ráðherra en er samt mjög mikilvægt, þetta með endurgreiðslu á virðisaukaskatti á vörur sem ferðamenn kaupa hérlendis. Erum við ekki sammála um að það sé fulllangt gengið að vera með 4 þús. kr. lágmark? Veit hæstv. ráðherra hvar það mál stendur? Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvort hækkun hefur tekið gildi 1. janúar eða hvort það þarf að reka á eftir því. En þar eru tekjur fyrir ríkissjóð.