144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

starfshópur um myglusvepp.

488. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elín Hirst) (S):

Virðulegi forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrúnar Magnúsdóttur varðandi starfshóp um myglusvepp sem var skipaður 10. júní 2014, en hlutverk hans var að endurskoða lög og reglugerðir á sviði byggingarmála með tilliti til myglusvepps og þess tjóns sem hann getur valdið.

Þetta mikilvæga mál var samþykkt á Alþingi 12. maí 2014. Skipun starfshópsins er í samræmi við ályktun Alþingis frá þeim degi. Fyrsti flutningsmaður þingsályktunarinnar var hv. þm. Kristján L. Möller. Hér er undir mál sem snertir hóp fjölskyldna í landinu sem býr við þær aðstæður að geta jafnvel ekki notað fasteignir sínar vegna þess að í þeim hefur greinst mygla eða myglugró. Fólk getur sem sagt ekki dvalið heima hjá sér vegna þess að það veldur því heilsutjóni.

Þetta er mál sem kerfið hefur ekki getað tekist á við fyrr en vonandi breytist það þegar þessi starfshópur skilar áliti sínu og þar með verða loks til einhverjar leiðbeiningar um það hvernig eigi að bregðast við í svona málum. Þegar heimili fólks er undir má segja að allt sé undir.

Einkenni myglusvepps í íbúðarhúsnæði eru þau að hann grasserar í raka við ákveðið hitastig. Afleiðingarnar eru þær að sumt fólk — þetta er reyndar mjög einstaklingasbundið — þróar með sér ofnæmi, ertingu eða eitrun. Einkennin eru oftast tengd efri hluta öndunarvegar. Þau eru höfuðverkur, erting í augum, stíflað nef o.fl. Síðan horfum við upp á mun alvarlegri áhrif á heilsufar þar sem málið hreinlega snýst um hvort viðkomandi geti átt það fyrir höndum að eiga ekki heilsusamlega ævi.

Spurningin mín til hæstv. umhverfisráðherra er (Forseti hringir.) því: Hvernig gengur starf þessa starfshóps?