144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vill nú svo til að eignarrétturinn er í stjórnarskrá, sem hv. þingmenn hafa allir svarið eið að með undirskrift sinni, en almannarétturinn ekki. Hann er í Grágás, hann er í ýmsum lögum sem eru neðar í röðinni en stjórnarskráin. Stjórnarskráin er æðst allra. Og það er alveg sama þótt mönnum þyki það leiðinlegt og vildu gjarnan hafa það öðruvísi þá er þetta svona, að eignarrétturinn er í 72. gr. stjórnarskrárinnar og hann er friðhelgur samkvæmt stjórnarskránni.

Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvort betra sé að hafa þetta öðruvísi. Þá geta menn komið með tillögu um að breyta stjórnarskránni, það er ákveðið ferli. Það þarf tvö þing. Reyndar er núna hægt að gera það með kosningu, á þessu kjörtímabili reyndar, eingöngu, annars þarf tvö þing til að samþykkja breytingar á stjórnarskránni og ég skora á hv. þingmann að koma þá með slíka breytingu.