144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Já, það er hárrétt sem kemur fram í andsvari hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og mjög mikið áhyggjuefni. Auðvitað sýnir þetta ákveðið stefnuleysi hjá ríkisstjórninni því að það var alveg ljóst fyrir kosningar að þetta var ekki sá veruleiki sem átti að bjóða viðkvæmustu hópunum upp á hjá kjósendum Framsóknarflokksins. Mér finnst svo ég segi það bara enn og aftur, ég held að mjög mikilvægt sé að hv. velferðarnefnd fari mjög ítarlega yfir sambærileg dæmi í öðrum löndum, það verði athugað hvort ekki sé hægt að búa til samfellu í sögu hverrar manneskju sem þarf á stuðningi að halda. Ég held að okkur yrði mikill sómi að því, af því að ég heyri svo mikið í fólki, eins og ég veit að margir þingmenn gera, og er í samskiptum við svo marga aðila sem þekkja af eigin raun erfiðleika er lúta að því að þeir eru aldraðir, öryrkjar, atvinnulausir, hafa misst allt sitt o.s.frv. Kjör þeirra versnuðu margfalt í hruninu af því að hlutfallslega þurfa kjörin að versna svo lítið til að þau verði margfalt verri.

Okkur væri svo mikill sómi að því að við mundum aðeins gefa þeim hóp andrými í staðinn fyrir að ná kverkataki á honum.