144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Enn gerast hörmulegir atburðir í nágrannalöndum okkar. Í gærkvöldi komu þúsundir Dana saman í Kaupmannahöfn til að mótmæla drápum á saklausum borgurum um síðustu helgi. Fulltrúar Íslands voru þar mættir, utanríkisráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík, og var það vel til fundið. Um síðustu helgi voru saklausir borgarar og lögregluþjónar drepnir og særðir í árás í Kaupmannahöfn, okkar gömlu höfuðborg þar sem hundruð Íslendinga ganga um á hverjum degi. Með morðunum var verið að mótmæla gildum frelsis og laga og nú lýsa trúbræður morðingjans yfir stuðningi við hann.

Í nágrannalöndum okkar er opin umræða um þá hættu sem steðjar að hinum frjálsa heimi og þjóðfélögum vegna fjölgunar á árásum einstaklinga og hvers konar öfgahópa. Hér á landi á engin slík umræða sér stað og það er spurning hve lengi við ætlum að skila auðu í umræðu um öryggi íbúanna.

Hér hafast menn öðruvísi að. Þeir sem vekja athygli á hættunni er steðjar að nágrönnum okkar eru skotnir niður og ataðir auri í samfélagsumræðunni sem aldrei kemst á það stig að ræða um málefnið.

Virðulegi forseti. Tjáningarfrelsi er fótumtroðið en það virðist oft og tíðum aðeins vera fyrir útvalda. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra Ólöfu Nordal fyrir að hefja umræðuna um hvort taka skuli upp forvirkar rannsóknarheimildir hér á landi. Tökum umræðuna í samfélaginu um þá ógn sem steðjar að í nágrannalöndum okkar. Við getum ekki tekið þá áhættu að hún berist ekki hingað.