144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

niðurstaða skýrslu um endurreisn bankanna.

[15:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er forsætisráðherra Íslands sem hefur staðhæft í fjölmiðlaviðtali að það sé sláandi að menn hafi komið í veg fyrir að tækifæri yrðu nýtt og að menn hafi fundið leiðir til að komast fram hjá neyðarlögunum. Hann segir líka að að því hafi staðið ráðherrar og opinberir starfsmenn. Þetta eru auðvitað ásakanir sem hitta mjög marga fyrir.

Hæstv. forsætisráðherra getur svo reynt að snúa endalaust út úr um það hvað mönnum hafi gengið til í samningum við kröfuhafa. Ég minni aftur á að það voru þáverandi seðlabankastjóri, leiðarljós lífs hans, og þáverandi fjármálaráðherra, sem 15. nóvember 2008 gáfu skýrt fyrirheit um að fram færi verðmat milli gömlu og nýju bankanna, nýtt verðmat, sem mundi ráða endurgreiðslum og gáfu skýrt loforð um að fullar endurheimtur kröfuhafa yrðu tryggðar. Það eru staðreyndir málsins.

Virðulegi forseti. Mér finnst eðlilegt að fara fram á það (Forseti hringir.) við hæstv. forsætisráðherra að hann skýri (Forseti hringir.) frekar þau orð sín hvar farið var á svig við lög. Hvernig fundu menn (Forseti hringir.) leiðir til að fara fram hjá neyðarlögunum? (Forseti hringir.)