144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[18:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa heildstæðu nálgun á mikilvægu máli. Ég held að við töpum sannarlega engu á því að rannsaka þessa möguleika. Og vegna þess að hv. þingmaður nefndi áhuga Einars Ben. hér fyrr á tíð á að leggja lest austur fyrir fjall þá skiluðu rannsóknir á þeirri lestarlagningu okkur veginum um Þrengslin og því vegarstæði sem áður var ókunnugt um og var miklu snjóléttara en leiðin yfir heiðina, svo það ætti ekki að verða til þess að hræða menn frá því að skoða málin.

Ég skil áætlanirnar um lest frá Keflavík til Reykjavíkur þannig að hún standi undir sér á viðskiptalegum forsendum og að inn í það dæmi sé ekki reiknað verðmæti landsins sem losnar í Vatnsmýrinni, að ekki sé reiknaður sparnaðurinn við að þurfa ekki að reka tvo flugvelli með þessu millirúmi, að ekki sé reiknaður sparnaðurinn í ferðatíma, þjóðhagslegur ávinningur o.s.frv.

Ég spyr hv. þingmann: Er það ekki alveg nauðsynlegur hluti af því að gera átak í þessu efni að ríkið kæmi með myndarlegum hætti að stofnfjárfestingunum af því að sveitarfélögin eru ekki í miklum færum til þess? Er ekki margvíslegur ávinningur fyrir ríkissjóð og ríkið varðandi gjaldeyrisútgjöld, landvinninga og þjóðhagslegan ávinning ýmiss konar sem ríkið fengi á móti slíkum framlögum? Leggur ríkið ekki einmitt verulega fjármuni í svona innviðagerð í almenningssamgöngum í löndunum í kringum okkur sem við viljum helst bera okkur saman við?