144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[18:44]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að leggja mitt lóð á vogarskálarnar, skulum við segja, og mæla með þeirri tillögu sem fram er komin, ég er reyndar einn af flutningsmönnum á málinu. Mig langar að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir góða og yfirgripsmikla ræðu og get tekið undir allt í þeirri ræðu. Mig langaði bara til að bæta örfáum punktum við, kannski að einhverju marki vegna þess að það er styttra síðan ég var borgarfulltrúi en hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Helgi Hjörvar, aðeins styttra síðan maður lá yfir málefnum höfuðborgarsvæðisins og samgangna hér.

Mig langaði að fara aðeins dýpra inn í þróun höfuðborgarsvæðisins. Það er mikilvægt að hugsa til þess að hlutirnir breytast á stuttum tíma, jafnvel hér á Íslandi. Við upplifum Reykjavíkurborg eins og hún er sé búin að vera svona nokkuð lengi, en staðreyndin er sú að frá árinu 1985, eða um það bil þegar Kringlan var byggð, hefur byggt land höfuðborgarsvæðisins tvöfaldast, þ.e. byggðin á höfuðborgarsvæðinu hefur tvöfaldast frá árinu 1985. Staðan í dag er sú að þriðjungur Íslendinga býr í Reykjavík og 2/3 íbúa landsins eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Höfuðborgarsvæðið, þó að það sé vissulega ekki eina svæðið og kannski minna en mörg önnur svæði á landinu, og hagkerfi höfuðborgarsvæðisins, er alla vega stóri drifkrafturinn í íslensku hagkerfi hjá íslensku þjóðinni.

Það er kannski skiljanlegt að ákveðin tilhneiging sé til þess hér að tiltölulega lítill tími fari í umræður um þróun höfuðborgarsvæðisins miðað við umræður um þróun landsins í heild og annarra svæða. Þess vegna fagna ég hverju tilefni til þess að kafa í borgarmálin hérna.

Hv. frummælandi Katrín Jakobsdóttir kom aðeins inn á þær breytingar sem orðið hafa í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þeirrar miklu fólksfjölgunar sem orðið hefur á svæðinu á síðustu áratugum og ekki síður útþenslu svæðisins, eins og ég segi hefur höfuðborgarsvæðið tvöfaldast frá 1985. Við síðustu mælingu fóru 48% af landsvæðinu undir umferðarmannvirki, þ.e. götur, bílastæði o.s.frv. Sífellt lengri tími íbúa höfuðborgarsvæðisins fer í ferðir á milli staða. Þetta er ákveðin skerðing á lífsgæðum þessara íbúa, auk þess sem þetta er ekki sjálfbært. Þetta eykur mengun. Þetta eykur svifryk sem er orðið verulegt vandamál í sumum hverfum borgarinnar. Auðvitað er þetta þjóðfélagslega dýrt. Þetta eyðir miklu innfluttu eldsneyti. Sífellt fleiri ferðir auka slysatíðni sem aftur er þjóðhagslega dýrt o.s.frv.

Öll þróun í þá átt að auka hlut almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu er ekki bara þjóðhagslega hagkvæm heldur þýðir líka mælanlega aukin lífsgæði fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins þá 2/3 hluta landsmanna sem hér búa. Það er því til mikils að vinna.

Mig langaði aðeins til að skoða hinn endann á tillögunni, hugmyndina um að kanna lagningu lestar á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Mig langar að skoða það aðeins út frá ferðamannaiðnaðinum. Keflavíkurflugvöllur er ekki lengur gátt okkar Íslendinga til útlanda, til umheimsins, heldur ekki síður aðalgátt gesta Íslands og í raun grunnur að öllum ferðamannaiðnaðinum sem nú er aftur orðinn stærsti atvinnuvegur landsins.

Maður heyrir stundum talað um að ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi sé einhvers konar bóla sem sé alveg að fara að hætta. Það hefur vissulega sést í öðrum löndum sem hafa orðið stórir ferðamannastaðir að ferðamennskan hefur minnkað. Yfirleitt hefur þurft einhvers konar óáran til, pólitískan óstöðugleika, stríð, náttúruhamfarir eða eitthvað slíkt. Það virðist vera ákveðið lögmál þegar kemur að ferðamennsku að staður sem orðinn er vinsæll nýtur vinsælda, þó svo auðvitað fari það upp og niður, til langframa. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur í allri uppbyggingu, þegar við skoðum stoðkerfi okkar, að við gerum ráð fyrir því að ferðamannaiðnaðurinn sé ekki bara enn ein síldarvertíð sem styttist í að hætti.

Í umræðu um stöðu ferðamannaiðnaðarins, sérstaklega nú í vetur, má eiginlega segja að öll okkar kerfi séu í raun sprungin, þar með talinn Keflavíkurflugvöllur og tengingin við gistirýmið og höfuðborgarsvæðið. Þegar flugstöð Leifs Eiríkssonar var opnuð 1987 urðu harðar deilur í þessum sal um það hvort flugstöðin væri ekki allt of stór, að okkur mundi ekki endast ævin til að nýta allt það pláss. Síðan höfum við eiginlega verið í stöðugu stækkunarferli og sjáum ekki fyrir endann á því. Þannig að öll svona tenging, það að stytta ferðatímann og bæta samgöngur við Keflavíkursvæðið, er mjög mikilvæg. Það er mikilvægt í dag og verður enn mikilvægara eftir nokkur ár.

Mig langaði aðeins að koma inn á kostnaðinn líka. Menn slá tölunni 100 milljarðar á svona verkefni sem eru vissulega mjög miklir peningar og háar upphæðir, en sem stofnframkvæmd sem nýtist annars vegar höfuðborgarsvæðinu, þar sem 2/3 landsmanna búa, og hins vegar ferðamannaiðnaðinum, sem er stærsti iðnaður í hagkerfinu, má spyrja hvort 100 milljarðar séu í raun svo mikil fjárfesting.

Mig langar að minna þingheim, áður en ég hætti hér, á nokkrar framkvæmdir. Minni manna er misjafnt en þeir sem muna hversu óhugsandi þær framkvæmdir voru áður en þær urðu að veruleika, hversu ógurlega stórar og dýrar þær voru og að þetta væri nú örugglega eitthvað sem mundi aldrei gerast á okkar lífstíð, en það gerðist nú samt. Ég minni á Landssímann sem settur var á fót í kringum 1905. Ég minni á hringveginn sem opnaður var 1974. Ég minni á Reykjavíkurhöfn sem var byggð á árunum 1913–1915. Ég minni á Hvalfjarðargöng sem voru opnuð 1998, Landspítalann sem var opnaður 1930. Allt voru þetta risaframkvæmdir, miklu stærri en þjóðin hélt að hún mundi nokkurn tímann þurfa á að halda. Megnið af þeim eru framkvæmdar og opnaðar á erfiðleikatímum í íslenskri sögu og í íslensku hagkerfi. En ég held að enginn fari að rífast um það að allar urðu þessar framkvæmdir til góðs og allar hafa þær margsannað sig síðan.