144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:44]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var fallegt af hv. þm. Jóni Gunnarssyni, formanni atvinnuveganefndar, að koma hingað með klæði á vopnin við þessa umræðu. [Hlátur í þingsal.] Það er hins vegar mjög eftirtektarvert að á 18 fundum nefndarinnar skuli ekki hafa gefist tóm til að svara með einum einasta hætti efnislega þeim margvíslegu athugasemdum sem komið hafa bæði frá opinberum stofnunum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga við þetta mál. Það er eiginlega umhugsunarefni. Þau orð hv. þingmanns að umhverfisnefnd hafi ekki fjallað um þetta mál af neinu viti fyrr en í janúar eru honum ekki sæmandi. Ég er viss um að hann hefur misst þau út úr sér og að hann eigi eftir að biðjast afsökunar á þeim. (Gripið fram í.) Það er alrangt og það veit hv. þingmaður mætavel.

Ég held að það sé full ástæða til að menn velti fyrir sér hvort ekki sé hægt að fara með þetta mál núna strax inn í nefndina og gera það (Forseti hringir.) að verklagi milli nefndanna að fara vandlega yfir álit umhverfisnefndar og athuga hvort ekki sé hægt að ná betri samhljómi. Það eru svo mörg atriði sem menn eru búnir að benda á sem greinilega er ekki sátt um í þinginu þó að það hafi verið sátt um það hjá meiri hluta atvinnuveganefndar.