144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sammála því sem hann tók fram í lok máls síns að það er eðlilegt að þetta mál fari aftur til hv. atvinnuveganefndar. Mín skoðun er sú að eðlilegt væri að gera hlé á 2. umr. og nefndin tæki málið til sín í ljósi þess að umsagnar hv. umhverfis- og samgöngunefndar sér ekki stað í nefndaráliti meiri hluta hv. atvinnuveganefndar. Ég ímynda mér að nefndin hljóti að þurfa að taka tillit til þess. Mér finnst ekki hægt að þingið sé að ræða þetta mál hér í 2. umr. án þess að við höfum heyrt neitt um það hvað meiri hluta atvinnuveganefndar finnst um þá umsögn.

En gott og vel. Hv. þingmaður kom inn á nokkur þau atriði sem athugasemdir hafa verið gerðar við í frumvarpinu. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann lagði á það áherslu að málið færi aftur til nefndarinnar, hver hann telur vera mikilvægustu atriðin sem þurfi að lagfæra. Í umræðum hafa komið fram ýmis sjónarmið hvað það varðar að kerfisáætlun þurfi að ræðast á Alþingi áður en hún verður samþykkt. Það hafa komið fram þau sjónarmið að of langt sé gengið í því að skerða skipulagsvald sveitarfélaga en eins og kunnugt er þá er sjálfstæði þeirra mjög ríkt, svo ríkt að beinlínis er um það rætt í stjórnarskrá landsins og einnig hefur verið rætt um að taka þurfi miklu ríkara tillit til umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða. Það er mín skoðun að í frumvarpinu, með því að taka ekki tillit til umhverfissjónarmiða, sé litið fram hjá því að hér er um að ræða grundvallarágreiningsmál í íslenskum stjórnmálum, grundvallarágreiningsmál þegar kemur að náttúruvernd. Það er nánast eins og það sé hunsað í frumvarpinu og í vinnu hv. atvinnuveganefndar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann að hægt sé að ná sátt um málið og hvaða atriði af þessum eru þá mikilvægust til að ná slíkri sátt?