144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er svolítið merkilegt í þessari umræðu núna um fundarstjórn forseta að mönnum skuli líðast að vitna í hvað aðrir sögðu í nefndum. Ég hélt að það væri samkomulag um að maður gæti sagt frá því hverju maður stóð fyrir sjálfur og hvað maður sagði sjálfur en reynt að forðast að vitna í einstaka nefndarmenn í ræðustóli. Það hefur verið venjan og mér finnst það skipta miklu máli vegna þess að best er að menn segi sjálfir frá því hvað var verið að gera í nefndum.

Hér er líka verið að ræða um vandaða umfjöllun í atvinnuveganefnd. Ég ætla ekkert að vefengja það, það getur vel verið að það hafi verið gert. Sumir af þeim sem eru á nefndarálitinu eru þar með fyrirvara og gerðu grein fyrir því að þeir gerðu athugasemdir einmitt við stofnanaskipulag hvað þetta varðar.

Ég mæli með því við hæstv. forseta að þetta mál verði tekið til umræðu og samskipti nefndanna tekin fyrir í forsætisnefnd. Hvað ef nefndarálitum er ekki skilað, hvað gerist þá? Geta menn þá farið fram eins og hér án þess að skila nefndaráliti frá nefndum sem hefur formlega við 1. umr. verið ætlað að fjalla um málið? Er samt hægt að ganga frá því og skila því inn í þingið (Forseti hringir.) án þess að með fylgi nefndarálitið sem óskað var eftir? (Forseti hringir.) Þetta eru ekki vinnubrögð sem við getum staðið fyrir og ég veit að hæstv. forseti er ekki mjög ánægður með þetta.