144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú leggur flensan hvern manninn á fætur öðrum og formaður þingflokks Framsóknarflokksins löglega afsakaður, en ég sakna þess hjá varaformanni þingflokksins að hann skuli ekki taka til varna fyrir formann umhverfis- og samgöngunefndar, Höskuld Þór Þórhallsson. Hér hefur nefndarformaður lýst því yfir að Höskuldur Þór Þórhallsson, sem Framsóknarflokkurinn hefur falið formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd, hafi unnið illa að því máli sem hér er til umræðu, að þar hafi verið kastað til höndunum. Maður hlýtur þá að spyrja Framsóknarflokkinn hvort þær yfirlýsingar standi átölulaust af hálfu Framsóknarflokksins eða hvort Framsóknarflokkurinn hafi hugsað sér að skipta um forustu í umhverfis- og samgöngunefnd.

Við hljótum líka að spyrja, virðulegur forseti: Er yfir höfuð meiri hluti fyrir þessu þingmáli? Þegar meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar telur að gera þurfi veigamiklar breytingar á málinu öndvert við atvinnuveganefnd telst mér til að það séu einir fimm eða sex þingmenn úr stjórnarliðinu (Forseti hringir.) og að minnsta kosti er mjög hæpið að það sé meiri hluti fyrir málinu í þinginu.