144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þingmanninum varðandi skipulagsvaldið. Ég held að þetta sé eins og hér er bent á. Það er vitnað til þess hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að þetta sé hornsteinn sjálfsstjórnarréttar sem beri að virða. Sambandið bendir á leið þar sem hægt er að einfalda og milda þessa grein þannig að hún verði ásættanleg fyrir sveitarfélögin. Það telur meiri hluti atvinnuveganefndar ekki ástæðu til að gera. Síðan er vitnað til þess að skapast geti bótaábyrgð vegna þeirra skipulagsbreytinga sem sveitarstjórnin gæti orðið bundin af vegna ákvæða laganna ef breyta þarf aðalskipulagi. Þeir fullyrða að slík ábyrgð geti orðið til þess að ríkið þurfi eða verði bótaskylt og jafnvel þurfi að leysa inn land ef við á. Þeir vitna meðal annars í umsögn Skipulagsstofnunar þannig að það er ekki vafi í mínum huga — eða jú, það er vafi í mínum huga um að þetta geti staðist. Þetta þarf að kanna áður en málið verður samþykkt. Það hefði auðvitað þurft að gerast þannig að þingmenn fengju tækifæri til að tala um málið. Eins og við vitum er 2. umr. aðalumræða hvers lagafrumvarps og því miður kom frumvarpið svona vanbúið hingað inn.

Varðandi línuna og að gera það sem er ódýrast. Ég tek undir það að auðvitað sé óásættanlegt að aðeins annar þeirra aðila sem um ræðir ráði för í því og ekki sé tekið tillit til þess kostnaðar og ama sem sveitarfélög og landeigendur og aðrir verða fyrir. Það er algjörlega óásættanlegt. Þetta hefur komið fram meðal annars við Akureyrarflugvöll þar sem menn vildu leggja línur í loft en ekki í jörð, það er eitt af því sem Akureyrarbær hefur verið að berjast fyrir því að það er hvorki fallegt né (Forseti hringir.) skynsamlegt.