144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ef minni hlutinn í hv. atvinnuveganefnd hefði ekki birt umsögn meiri og minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar hefði hún ekki legið fyrir þinginu í dag, ef minni hlutinn á þingi hefði ekki haldið uppi umræðum um þetta mál, því að ekki gerir meiri hlutinn það, sannfæringin fyrir málinu er ekki meiri en svo að við verðum ekki mikið vör við meiri hlutann hér, hefði málið væntanlega þotið í gegn án þess að þessi umsögn, sem sérstaklega var beðið um, og málinu sérstaklega vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar, ekki einu sinni komið til umræðu.

Það eru þessi vinnubrögð sem ég geri athugasemd við. Þess vegna segi ég að þetta mál sé vanbúið og ekki tækt til atkvæðagreiðslu. Ekki er búið að ljúka málinu á þann hátt sem þingsköp Alþingis gera ráð fyrir. Ég vitna til orða hæstv. ráðherra sem fylgdi málinu úr hlaði, hann kallaði eftir þessari breiðu sátt um málið, að það væri mjög mikilvægt að umhverfisnefnd kæmi að málinu því að þetta væri líka stórt umhverfismál. Svo er því bara ekkert sinnt.

Virðulegi forseti. Þess vegna segi ég að málið sé ekki tilbúið til atkvæðagreiðslu í dag. Það verður að gera hlé á þessari umræðu, þ.e. ef við viljum vinna vinnuna okkar almennilega. Ég er ein af þeim sem vilja það.