144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til þess að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hlý orð í minn garð undir þessum lið í þinghaldi gærdagsins. Ég hélt reyndar fyrst að um kaldhæðni væri að ræða hjá hv. þingmanni en þannig hafa kaldir og naprir vindar stjórnmálanna leikið mitt saklausa sveinshjarta. [Hlátur í þingsal.] Svo reyndist ekki vera. Ég verð að segja að orð hans eru mér hvatning til þess að ítreka þá skoðun mína að þeir sem beita hinum svokölluðu fullveldisrökum gegn Evrópusambandsaðild en taka á sama tíma þátt í því að samþykkja hér tilskipanir og lagafrumvörp sem samin eru í Evrópusambandinu, lítið eða algerlega óbreytt, eru ekki samkvæmir sjálfum sér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er þannig að á köflum eru menn algerlega á jaðri þess sem getur talist gerlegt í þinginu út frá fullveldishugtakinu eins og menn þekkja. Það hef ég sjálfur séð á þeim stutta tíma sem ég hef verið á þingi, ég hef verið á þingi í bráðum sex ár, að gerist ítrekað. Þess vegna er mikilvægt að Íslendingar leiði þessa spurningu til lykta og ákveði á hvaða stað þeir ætli að vera í Evrópusamstarfinu.

Ég er þeirrar skoðunar eins og fram kom hjá hv. þingmanni í gær að við eigum að ganga í Evrópusambandið, að við eigum að vera þátttakendur í því að móta löggjöf okkar heimshluta, að það sé með þeim hætti sem við virkjum og nýtum fullveldi okkar í samstarfi frjálsra þjóða.