144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

forvirkar rannsóknarheimildir.

[10:48]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að beina til hæstv. innanríkisráðherra fyrirspurn um forvirkar rannsóknarheimildir. Ráðherrann hefur nýverið tjáð sig um að hún vilji umræðu um það hvort veita eigi lögreglunni sérstakar heimildir til forvirkra rannsóknarheimilda eins og það heitir og það kallast að sumu leyti á við ósk eða ráðgjöf um að slíkar heimildir þurfi í mati ríkislögreglustjóra á hættu af hryðjuverkum og öðrum stórfelldum árásum.

Nú er þessi þingmaður tiltölulegur nýgræðingur í þessari umræðu en hún er hvorki ný á þingi né í samfélaginu. Þá verður að segjast eins og er að í mínu hjarta — og maður heyrir líka í umræðunni að margir hafa áhyggjur af mannréttindavinklinum þegar kemur að rannsóknum lögreglu. Það er líka aðeins óljóst hvað átt er við með hugtakinu forvirkar rannsóknarheimildir og að hvaða leyti hugsað er fram fyrir það sem nú þegar eru heimildir fyrir, þ.e. að rannsóknir byggi á rökstuddum grun sem er síðan kannski spurning hversu vel sé skilgreindur.

Mig langar til að spyrja ráðherrann hvort hún áætli að leggja fram frumvarp í þessa áttina. Er hún kannski einungis að kalla eftir umræðu og á hvaða plani sér þá hæstv. ráðherra þessa umræðu fyrir sér? Einnig spyr ég hvort ekki sé nauðsynlegt að við hugum að frelsi einstaklingsins og mannréttindunum, ekki bara þegar kemur að spurningunni um forvirkar rannsóknarheimildir heldur ekki síður um þær heimildir sem nú þegar eru fyrir hendi.